139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra athugasemdina. Röksemdafærslu hans er við brugðið miðað við það sem oft hefur áður verið í þessari framsetningu. Eignir Landsbankans voru ítarlega skoðaðar af fjárlaganefnd og þar kom mjög greinilega fram að hluti þeirra mun einfaldlega ekki innheimtast. Það er ekki hægt að upplýsa úr þessum stól nákvæmlega hvaða eignir það eru enda ríkti trúnaður yfir þeim upplýsingum, því litla sem við fengum að sjá.

Hvað varðar áhættuna er rétt að samningurinn sem slíkur lítur vel út en að fenginni nákvæmri áhættugreiningu á þáttum hans kemur í ljós að þó að hann sé að mörgu leyti ágætur er hann mjög áhættusamur þegar grannt er skoðað, jafnvel ekki ólíklega upp á 233 milljarða. Sú áhætta er allt of mikil til að ég geti sætt mig við þennan samning.

Hvað varðar það að velta þessu yfir á fjármálafyrirtækin er það einfaldlega svo að miðað við hagstæðustu niðurstöðu munar þau ekki mikið um þetta. Miðað við aðferðafræðina sem lögð er til fellur þetta til sem kostnaður á fjármálafyrirtækin á löngu tímabili og hefur væntanlega ekki afdrifaríkar og jafnvel ekki miklar afleiðingar fyrir rekstur þeirra. Þess vegna er það lagt til og það er ekki rökfræðivilla heldur er það mjög vel ígrunduð athugasemd og athugun á málinu sem gerði okkur kleift að leggja það til.