139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:16]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú veit ég ekki hvað þingmönnum Hreyfingarinnar fer á milli á þingflokksfundum sínum en það lá algjörlega fyrir þegar þetta samkomulag var gert 17. desember sl. að það orðalag að þetta ætti að ákveðast í sameiningu í fjárlaganefnd þýddi ekki að einn fulltrúi, einn hv. þingmaður í nefndinni gæti lagst þver fyrir það að fjórar vikur liðu og enginn fundur yrði haldinn. Það lá fyrir að funda ætti í nefndinni í vikunni áður en þing kæmi aftur saman. Það lá líka fyrir að þeir fundir skyldu ekki vera óhóflegir til að íþyngja ekki hv. þingmönnum um of. Við það var allt staðið, enda átti að taka málið fyrir svo fljótt sem auðið yrði eftir að þing kæmi saman aftur í janúar.

Hér erum við stödd og það er kominn febrúar. Hve lengi ætlar þingmaðurinn að halda þessum rangindum uppi hér í ræðustól?