139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Það er ekki auðvelt að fara þá leið sem við sjálfstæðismenn leggjum til, ég tek undir það. Ég tek líka undir að það er allur annar bragur á ræðum okkar núna. Af hverju? Af því að málið er gjörbreytt, að efni til og að formi til. Það er gjörbreytt út frá köldu hagsmunamati í þágu Íslendinga. Það er okkar, stjórnmálamanna, að vega og meta hvor leiðin er betri. Það þýðir ekki að koma hingað upp og tala eins og þetta séu sömu samningarnir, það er ekki þannig. Þá bið ég hv. þingmann að kynna sér málið enn betur.

Við sjálfstæðismenn segjum: Já, við gerum okkur grein fyrir því að þetta geti þýtt 47–50 milljarða miðað við samninginn sem liggur fyrir og miðað við upplýsingarnar sem við í fjárlaganefnd höfum fengið og byggjum grunn okkar á.

Hvað skiptir máli? Hvað skiptir mestu máli til þess að við hækkum ekki skatta? Ekkert endilega að hækka skatta út af Icesave, heldur út af fjárlagahallanum sem blasir við á þessu ári. Við sjálfstæðismenn lögðum fram tillögur í efnahagsmálum sem ég veit að hv. þingmaður hefur kynnt sér. Hér þarf að koma atvinnulífinu af stað. Ég held að við hv. þingmaður séum miklir samherjar þegar kemur að því að efla og styrkja atvinnulífið. Það þarf að eyða óvissu á ýmsum sviðum, í sjávarútvegsmálum og í orkumálum. Við tókum fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og samþykktum, umburðarlyndi partur Samfylkingarinnar og stjórnarandstaðan, og tókum höndum saman og afgreiddum gagnaversmálið til þess að við gætum farið að skapa eitthvað. Það er þannig sem við getum komið hjólunum aftur af stað, þannig sköpum við hagvöxt og þannig sneiðum við fram hjá skattahækkunum. (TÞH: … hvaða hluti …)