141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

rannsókn á einkavæðingu bankanna.

527. mál
[18:11]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Aðeins nokkur orð að lokum.

Ég fagna mjög skoðunum hv. þm. Péturs H. Blöndals og hvernig hann lítur á þetta mál. Við erum sammála um að það eru nokkurs konar samlegðaráhrif í því að fara með þessar rannsóknir af stað í einu, þó að það kosti það að þurfa að leggja fram tvær þingsályktunartillögur, þá verður bara að hafa það. Ég stóð við orð mín að yrði þessi breytingartillaga felld mundi hún koma fram á sjálfstæðu þingskjali, sem sjálfstætt þingmál, og það er birtist hér í dag.

Varðandi viljaleysi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að hún hafi gleymt málinu eða hvernig hv. þingmaður orðaði það, þá er nú ekki svo vegna þess að forseti þingsins fer með dagskrárvald í þinginu. Þetta er einfaldlega að koma inn í þingið í fyrsta sinn og til fyrri umr. Ég minni á að enn eru 24 þingdagar eftir þannig að að þessari umræðu lokinni legg ég til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Fyrir hvatningu hv. þm. Péturs H. Blöndals ætla ég að leggja það til á nefndarfundi, sem verður í nefndinni á morgun á föstum fundartíma að málið verði strax sent til umsagnar til þeirra aðila sem vilja hafa álit á málinu og þeir geti þá skilað skriflegum álitum vegna málsins og sagt skoðun sína á því og lagt jafnvel til breytingartillögur.

Svo skal ég sjá um það að málinu verði flýtt inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þannig að það geti komið til síðari umr. fyrir þinglok og þá til samþykktar. Við skulum sjá hvort ekki sé ríkur vilji til þess hjá þingmönnum sem eru nú komnir í meiri hluta, þeim aðilum sem eru utan flokka, því að nú hefur ríkisstjórnin ekki nema 30 þingmanna minni hluta. Það má því vel vera að málið fái farsælan endi á þessu þingi. Ef það tefst í nefnd og ekki tekið út þá kemur það til með að lifa á næsta kjörtímabili, því að nauðsynlegt er að ráðast í þetta.