143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[16:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Síðastliðinn föstudagur, 21. febrúar, var alþjóðadagur móðurmálsins. Nú stendur yfir vika móðurmálsins. Í þessari viku er hvatt til umræðu í þjóðfélaginu um hvernig hægt sé að koma til móts við nemendur sem tala annað móðurmál en íslensku við að læra móðurmál sitt. Ég vil fagna þessu framtaki sérstaklega.

Talið er að í heiminum séu 6.700 lifandi tungumál. Um 70% jarðarbúa tala fleiri en eitt tungumál daglega. Hér á landi eru töluð yfir 100 tungumál og meira en 4.500 nemendur í grunnskólum og leikskólum eru tvítyngdir og í sumum tilfellum hægt að segja að þeir eigi tvö móðurmál. Tungumál eru verðmæti fyrir samfélagið. Það er mjög mikilvægt fyrir málþroska barna að þau fái tækifæri til að eiga samskipti á sínu móðurmáli. Góð kunnátta í móðurmálinu hefur áhrif á sjálfsmynd barna, er nauðsynlegur grunnur fyrir öðru tungumálanámi, þar með árangri í námi og virkri þátttöku í þjóðfélaginu. Það er því nauðsynlegt að styðja við nám í móðurmáli barna og hvetja börn til að ná tökum á móðurmálinu samhliða námi í íslensku. Það er sameiginleg ábyrgð foreldra og skóla.

Ég hef oft velt fyrir mér leiðum til að hvetja til virks tvítyngis og ekki komist að neinni einni niðurstöðu frekar en aðrir. Ég er þó viss um að viðhorf í samfélaginu skipta hvað mestu máli, þ.e. að við viðurkennum og séum öll meðvituð um kosti þess að tala fleiri en eitt tungumál þannig að viðhorf samfélagsins hvetji börn beinlínis til að tala tvö tungumál og foreldra til að rækta móðurmálið með börnunum.

Það er margt gott gert í skólum landsins en alltaf er hægt að gera gott betra. Þótt erfitt geti reynst að bjóða upp á beina kennslu í yfir 100 mismunandi tungumálum geta skólar í sameiningu miðlað lesefni, leitað uppi námsvefi, sett inn mismunandi tungumálastillingar í tölvur og svo mætti lengi telja. En fyrst þurfum við sem samfélag að viðurkenna og virða kosti tvítyngis.