143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

störf þingsins.

[17:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég er á svipuðum slóðum og þeir hv. þingmenn sem hafa talað. Hér hefur verið farið, sem ég held að sé afskaplega jákvætt, málefnalega yfir hlutina.

Ég lagði fram þingsályktunartillögu ásamt mörgum öðrum hv. þingmönnum, sjálfstæðismönnum, um viðskiptastefnu Íslands, sem ég vona að ég fái að tala fyrir sem allra fyrst. Tillagan snýr að innflutningsmálum okkar Íslendinga, verslunarmálum okkar Íslendinga.

Ég er mjög mikill fylgismaður frjálsrar verslunar. Þar höfum við gríðarlega mikla möguleika, en við erum með flókið og óskynsamlegt kerfi sem miklar deilur eru um og að mörgu leyti fullkomlega að óþörfu. Við eigum að setja sem markmið að auka samkeppni og við eigum að setja sem markmið að auka vöruúrval. Það á við á öllum sviðum. Við flytjum svo sannarlega mikið inn af landbúnaðarvörum, þvert á það sem við höldum, en þegar kemur að ákveðnum tegundum hljóta þeir sem koma að málum og munu skoða þetta komast að þeirri niðurstöðu að við séum fyrst og fremst að vernda kjúklingaframleiðslu á Íslandi. Ég held að það hafi ekki verið ætlunin þegar menn fóru af stað.

Ef við förum á heimasíðu OECD og berum saman verð til framleiðenda á Íslandi þá er það 40% lægra til íslenskra sauðfjárbænda en 250% hærra til íslenskra kjúklingabænda. Ég vil fá fjölbreytta vöru hingað í verslanir, vöru sem ég get fengið í öðrum löndum. Mér finnst ekki rétt áhersla hæstv. ríkisstjórnar, sem hér hefur komið fram, þegar kemur að innflutningi á vöru sem við framleiðum ekki hér á landi. (Forseti hringir.) Ég tel afskaplega mikilvægt að við förum vel yfir þessi mál. (Forseti hringir.) Við verðum að auka samkeppnina (Forseti hringir.) á þessu sviði og við þurfum að einfalda kerfið. Það á að vera sérstakt (Forseti hringir.) markmið.