143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er sannarlega víða hiti í samfélaginu og eðlilegt þegar svo er að það sjóði upp úr. Það er mikilvægt að við gætum þess hvert fyrir sig og sem hópur að hjálpast að við að gera þingstörfin sem sómasamlegust á allan hátt. En það er ekki hiti að ástæðulausu. Í fjölmiðlum í kvöld hefur verið dregið fram og rifjað upp að það er ekki bara hæstv. forsætisráðherra sem hefur snúið algjörlega við blaðinu frá því sem var í aðdraganda kosninga, það gera líka hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra sem töluðu mjög skýrt í aðdraganda kosninga. Þær lofuðu báðar þjóðaratkvæðagreiðslu, þær gerðu það. Hitinn sem er hér í þingsal kemur því ekki til af engu, hann kemur til af því að fólki er misboðið úti um allt samfélag. Það snýst ekki bara um skoðanaágreining heldur snýst um það að menn hafi orðið berir að ósannindum (Forseti hringir.) og óheilindum hver á fætur öðrum.(Forseti hringir.)

Svo vil ég spyrja hæstv. forseta: Hvað sér hann fyrir sér að þessi þingfundur standi lengi?