143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef þetta snerist ekki um að laga lagaumhverfið á Íslandi að lagaumhverfi Evrópu mundi hugtakið Evrópusambandið ekki þýða neitt. Auðvitað er það svo, alveg eins og EES, alveg eins og viðskiptasamningur, alveg eins og samningar almennt. Ef við ætlum að ákveða að gera eitthvað í sameiningu þá verðum við að aðlaga okkur hvert að öðru, það er jú punkturinn. Þess vegna skil ég ekki alveg hvers vegna þetta á að vera svona ægilega neikvætt hugtak.

Menn mega kalla þetta aðlögunarviðræður ef þeir vilja, en þetta eru líka samningaviðræður. Þetta er ekki tvennt ólíkt, þetta er bara hluti af sama fyrirbærinu og er algjörlega sjálfsagt. Við aðlögum okkur að ýmsum vestrænum háttum. Hvað er það ægilega hræðilegt? Það fer eftir því hvort hættirnir eru góðir eða slæmir og hér þurfum við að meta hvort viðskiptahættir Íslands gagnvart Evrópusambandinu eru góðir eða slæmir. Til þess þarf títtnefnda umræðu í þjóðfélaginu og til þess að sú umræða eigi sér stað tel ég að hér þurfi að vera loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu eins og ég kom að áðan.