143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar.

Þróun lýðræðis er eitthvað sem við þurfum sífellt að vera að ræða. Spakur maður, Winston Churchill, sagði eitt sinn að lýðræðið væri versta stjórnarformið sem hefði verið fundið upp fyrir utan öll hin sem hefðu verið reynd.

Punkturinn í þeim orðum er vitaskuld að lýðræðið sé gagnlegt til þess að komast að einhverri niðurstöðu. Ég lít aðeins öðruvísi á þetta, ég tel það reyndar vera rétt en ekki vera aðalatriðið. Aðalatriðið í mínum huga er sjálfsákvörðunarrétturinn, að ég stjórni mínu persónulega lífi, að fjölskylda mín stjórni fjölskyldulíf sínu, að borgin mín eða bærinn stjórni borgar- eða bæjarlífi sínu og að landið stjórni landslífi sínu o.s.frv.

Þetta er ekkert það einfalt, þetta er grunnviðmið og það sem ég legg til að við höfum að leiðarljósi þegar við reynum að svara spurningum um það hver eigi að taka ákvörðunina. Það á líka við þegar kemur að umræðu til dæmis um einstaklingsréttindi, við mundum til að mynda ekki hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um að þagga niður í einhverjum múslimaklerki eða presti eða trúleysingja. Við mundum ekki gera það vegna þess að það er brot á ákveðnum skilgreindum grundvallarmannréttindum, nefnilega tjáningarfrelsi. Það er þar sem réttindi geta stangast á og það er alveg heljarinnar umræða.

Hvað varðar þróun lýðræðis á næstu árum eða áratugum vona ég að það verði þannig að litið verði á sjálfsákvörðunarréttinn á öllum skala sem sjálfsagðari hlut, að það verði almennt sjálfsagðara að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur, hvort sem það er þriðjungur þings eða 10% þjóðar sem ákveður það. Það er eitthvað sem við skulum endilega ræða, ég er meira en reiðubúinn til þess, ég hlakka til og vona að það komi upp á þessu tímabili.

Þegar kemur að Evrópusambandinu finnst mér persónulega 33.433 undirskriftir nokkuð sannfærandi. (Forseti hringir.) Þetta eru 13,8 % kosningarbærra manna á Íslandi. Mér finnst það duga, (Forseti hringir.) en það er bara ég.