143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[22:15]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að fullt tilefni sé til þess fyrir a.m.k. hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að safnast saman og horfa á sjónvarpsfréttirnar í kvöld og velta fyrir sér hvað þeir gera í stöðu mála eins og hún er núna.

Nú gengur ljósum logum á internetinu frétt sem flutt var í ríkissjónvarpinu þar sem sýnt er úr viðtölum við þrjá hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins til viðbótar við þá sem nú þegar hafa verið oft sýndir og haft eftir í fjölmiðlum undanfarið. Það eru ummæli sem eru með slíkum ólíkindum að mann setur hljóðan við að rifja þau upp. Mann minnti að þetta hefði verið sett nokkuð skýrt fram en að það hafi verið með svo afgerandi hætti sýnir hvað minni manns getur verið gloppótt og hversu gott það er að hafa (Forseti hringir.) vakandi fréttamenn og fjölmiðlamenn sem geta rifjað upp fyrir okkur staðreyndir málsins með þessum hætti. Ég held að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að fara yfir þetta í sínum hóp.