143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[22:49]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra hlýði núna á mál mitt vegna þess að ég hef ítrekað spurt hann spurninga en ekki fengið nein svör. Þar sem ég er núna á mínum síðustu ræðumínútum í þessu máli þætti mér vænt um að kallað yrði í hann.

Virðulegi forseti. Stór spurning situr eftir hjá mér eftir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað og líka eftir þá atburðarás sem við höfum fylgst með frá því kl. 18.50 á föstudaginn þegar þingsályktunartillagan um að slíta aðildarviðræðunum var lögð fram á þingi. Það breytti algjörlega eðli umræðunnar um skýrsluna. Hér hafa menn gagnrýnt okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að ræða þessi mál saman, en þó það nú væri að þau séu rædd saman þegar blekið er ekki þornað á þessari skýrslu sem við erum að ræða hér þegar fram kemur tillaga um að slíta viðræðum við Evrópusambandið sem beinlínis notar skýrsluna til vitnis um hvers vegna það eigi að gera. Þá er eðlilegt að við ræðum þetta tvennt saman.

Þess vegna vantar mig í fyrsta lagi svör við því hvað kallar á að þetta sé gert á þessum hraða, þ.e. að ekki megi klára að ræða þessa skýrslu fyrst almennilega í þinginu og kynna hana fyrir þjóðinni eins og hæstv. ráðherra ætlaði að gera og í öðru lagi hvers vegna menn ganga lengra í þessari þingsályktunartillögu en gert er ráð fyrir í samþykktum landsfunda beggja flokka og í stjórnarsáttmálanum. Ég ætla að rökstyðja það stuttlega. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Kynnt fyrir þjóðinni, stendur hérna, þetta er stjórnarsáttmálinn sem er enn volgur úr prentun, ekki ársgamall. Síðan er hér ekkert um að slíta viðræðunum heldur bara að gera hlé. Það er klárlega gengið lengra í tillöguflutningi fyrir þinginu í þingsályktunartillögu en gert er ráð fyrir í stjórnarsáttmálanum. Hvorki í landsfundarsamþykkt Framsóknarflokksins né landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins er talað um viðræðuslit og hvergi fyrr en í tillögunni sem utanríkisráðherra leggur fyrir þingið á þessum ógnarhraða sem ég hef oft nefnt.

Ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra svari þessu. Hann hefur ekki treyst sér til þess enn þá en vonandi fáum við einhvern tímann að vita ástæðuna fyrir því að skýrsla er lögð fram á miðvikudegi sem við byrjum að ræða á fimmtudegi — þegar ég var ráðherra var venjan sú að ráðherrar þurftu að vera búnir að skila inn þeim tillögum og málum sem þeir ætluðu að hafa á dagskrá ríkisstjórnarfundar morguninn eftir þannig að á sama tíma og menn voru að byrja að ræða skýrsluna var tilbúin tillaga um að slíta aðildarviðræðum sem vísar beinlínis í skýrsluna.

Þetta segir mér að á þeim sólarhring sem hæstv. ríkisstjórn hafði umfram okkur til að kynna sér efni skýrslunnar sá hún eitthvað sem olli því að það var rifið í neyðarhemilinn, skrifuð tillaga um að slíta viðræðum þvert á samþykktir beggja flokka, tillaga sem gengur miklu lengra en stjórnarsáttmálinn. Hvernig væri að menn kæmu nú hingað inn — hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki enn séð ástæðu til að koma inn í þennan sal þó að ég hafi óskað eftir því — og svöruðu þessari spurningu? Ef menn standa svona með sannfæringu sinni um að þeir séu að gera rétt í því að leggja þessa tillögu fram, enda hef ég ekki heyrt annað af hæstv. utanríkisráðherra, hljóta menn að geta staðið hér og sagt okkur hvers vegna. Hvað er það? Það kemur ekki fram í greinargerðinni. Þar kemur ekkert fram annað en að menn séu að leyna okkur einhverju. Það getur bara ekki verið, ég trúi því ekki. (Forseti hringir.) Komið bara og segið okkur þetta. Það er það sem ég kalla eftir, hæstv. forseti.