143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[22:54]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Eins og þingmaðurinn veit þá deilum við ekki endilega sömu sýn á Evrópusambandið en ég hugsa að við deilum þeirri skoðun að heppilegt sé að við fáum samninga á borðið þannig að við getum afstöðu til þess sem þar býðst í stað þess að gefa okkur niðurstöður fyrir fram. Þannig hefur það hljómað svolítið í umræðum hér í þinginu um þessi mál og fólk dregur augljóslega afar mismunandi ályktanir af þeim gögnum sem nú liggja fyrir. Andstæðingar aðildar telja að hér þurfi ekkert meira að koma fram og hægt sé að taka ákvörðun á meðan þeir sem eru hlynntir aðild telja svo ekki vera.

Ég held að út frá stöðunni í dag hefði besti kosturinn verið, eins og má kannski segja að komi fram í tillögu okkar Vinstri grænna sem hér liggur fyrir, að halda áfram því hléi sem er á viðræðunum og vera með þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé sammála mér í því.

Síðan langar mig líka að spyrja þingmanninn um þá skýrslu sem við vitum að er á leiðinni, sem hæstv. ráðherra hefur talað um að sé pöntuð samkvæmt forskrift og þess vegna sé ekki hægt að taka hana til umræðu; hvort hún telji ekki eðlilegt að fram komi í umræðunni um þessi Evrópusambandsmál sú skoðun sem væntanlega kemur fram í henni, eins og í þeirri skýrslu sem liggur fyrir, og þeir hagsmunir sem þar eru í húfi.