143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[22:56]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig um afstöðu til tillögu sem hefur komið fram og er í raun og veru einhvers konar sáttatillaga í ljósi þess að stjórnarflokkarnir ákveða að ganga það langt að viðræðum verði slitið en ekki haldið áfram með það hlé sem nú er hafið. Mér líst betur á hana en tillöguna frá hæstv. utanríkisráðherra og ég held að það gæti verið ásættanleg niðurstaða fyrir okkur að viðræðuhléið héldi áfram eins og það sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Mér líkar betur við það sem skrifað er í stjórnarsáttmálanum en tillöguna sem liggur fyrir. Eiginlega má segja að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sé að leggja til það sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Það er svolítið undarleg staða að það sé allt í einu orðin sáttatillaga vegna þess að ég lét mér ekki detta það í hug að ríkisstjórnin ætlaði að fara svona miklu lengra en kveðið er á um þar, eins og raunin er með tillögu utanríkisráðherra.

Mér finnst það því skynsamlegra og ástæðan er sú að mér finnst það ekki rétt að ríkisstjórnin geti túlkað það þannig að hún hafi eitthvert umboð eftir kosningar til að slíta þessum viðræðum og þar með að skjóta möguleikanum á því að við getum gert þetta aftur, þ.e. hafið aðildarferli, inn í töluvert langa framtíð, miklu lengri framtíð heldur en ef menn héldu sig bara við viðræðuhlé. Þar af leiðandi er ég vel til í að hugleiða það að styðja tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu efni. Þó að ég sé að sjálfsögðu þeim megin að vilja helst klára viðræðurnar get ég frekar fellt mig við áframhaldandi viðræðuhlé. Svo getum við mögulega gert þetta að kosningamáli í næstu kosningum.