143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[00:00]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp vegna þess að hér var í ræðustól fyrir nokkru hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson sem ég mundi halda fram að væri sá eini, eða einn af fáum a.m.k., í meiri hlutanum núverandi sem gæti flokkast undir að vera pólitískur afreksmaður á þeim vikum og missirum sem nú ganga yfir. Hann náði stórkostlegu samkomulagi í umhverfisnefnd sem er það síðasta gleðilega sem gerðist í þinginu, mjög gott samkomulag og af hverju náðist það? Jú, vegna þess að menn voru fúsir til að tala saman og það er reynsla mín að hægt sé að leysa öll mál ef menn eru tilbúnir til þess að ræða saman.

Í morgun var einmitt sett fram tilboð um það af hálfu okkar þingflokksformanna í minni hluta að menn mundu komast að samkomulagi og var ákveðið tilboð lagt fram í þeim efnum. Það sem ég skil ekki er hvers vegna við tölum ekki á þeim nótum. Af hverju náum við ekki samkomulagi um það hvernig við ljúkum þingstörfum í (Forseti hringir.) þessari viku? Það er ljóst að hæstv. ráðherra mun mæla fyrir tillögu sinni annaðhvort í nótt eða á morgun og það getur varla verið mikið mál að lenda þessu.