144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

örnefni.

403. mál
[14:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kann að vera skýr skilgreining ef maður með jákvæðri túlkun les saman fyrstu línuna þar sem talað er um landfræðilegan punkt, línu eða svæði sem hægt er að setja á landakort og vísar til eins ákveðins staðar, en ég staldra við það hvort vísunin til eins ákveðins staðar sé svolítið þröng eða takmarkandi. Út af fyrir sig fer þetta svolítið eftir því hvernig menn kjósa að túlka eða lesa í orðalagið. Það sem ég var með í huga var að passað yrði upp á víðari hugtök, jafnvel svolítið fljótandi hugtök, nöfn sem taka til stærra svæðis. Við getum sagt að örnefni séu jafnvel landshluti. Vestfirðir eru bara Vestfirðir og Norðausturland er kannski fljótandi heiti eða örnefni á býsna stóru landsvæði og það er ekki endilega nákvæmlega skilgreint hvort það endar á Brekknaheiði eða austan við Vopnafjörð o.s.frv. Túlkunin má ekki vera of stíf til að hægt sé að afmarka örnefninu stað. Það er það sem ég var að hugsa um.

Varðandi 11. gr. þá er að sjálfsögðu til bóta að opnað sé betur fyrir möguleika fólks að skrá inn örnefni í sérstaka gagnagrunna og gert aðgengilegt og fólki er gert það auðvelt. Helst þarf það að vera gagnkvæmt, að menn geti fengið líka ráðgjöf og stuðning við það að færa slíkt inn, segjum að eitthvert sveitarfélag eða einhver bóndabær vilji búa til örnefnaskrá eða uppfæra örnefnaskrá þá er það allt að góðu.

(Forseti hringir.) Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefndi að lokum um áhugann á þessum málum. Víða hefur eldra fólk, eða ekkert endilega bara eldra fólk, bundist samtökum í þessum efnum og má ég þá bæta við Reykdælingana, vini mína, hinu merka örnefnafélagi á Siglufirði sem hefur unnið ómetanlegt starf við að skrá þar örnefni.