144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér sýnist af svörum hv. þingmanns að þessi útfærsla hljóti að valda verulegum áhyggjum fyrir bæði landeigendur og sveitarfélögin. Það er alveg augljóst að það er ódýrast og einfaldast fyrir ríkið að spenna bara allar línur í lofti um sveitarfélögin, en það getur bitnað verulega á hagsmunum bæði einkaaðila og sveitarfélaga ef ríkið fer þannig fram. Ég minnist þess, meðal annars þegar ég hóf stjórnarsetu hjá Orkuveitu Reykjavíkur á sinni tíð fyrir svo sem 20 árum, að þá var ætlunin af hálfu Orkuveitunnar að fara með Nesjavallalínuna niður Mosfellsdalinn fram hjá Gljúfrasteini og þar í gegnum byggðina í lofti. Auðvitað mætti það eindreginni andstöðu af hálfu sveitarfélagsins og einstakra landeigenda. Niðurstaðan þá varð að miðla þeim sjónarmiðum að línan fór í jörð að stórum hluta sem fór í gegnum sveitarfélagið. Ég held að allir séu sammála um það nú 20 árum síðar að það hafi verið skynsamleg fjárfesting og eðlileg gjörð.

Það sem maður hlýtur að spyrja sig að er hvernig þessir efnahagslegu hagsmunir séu vegnir saman. Hvernig er það nú ef það er ódýrara fyrir ríkið eða Landsnet að spenna loftlínu en munurinn á því og jarðlínu getur verið miklu minni en hinir fjárhagslegu skipulagshagsmunir sem viðkomandi sveitarfélag getur haft af því að línan liggi í jörð, eða þeir hagsmunir að byggingarétti eða landverðmætum öðrum sem jarðeigendur geta haft af því að línan fari í jörð? Bætir ríkið til dæmis landeiganda það ef gæðum lands hans er spillt með lagningu loftlínu í eða við jörð hans? Er sveitarfélaginu bætt fjártjón sem það verður fyrir skipulagslega vegna slíkra aðgerða? Eða er það bara (Forseti hringir.) reikningur ríkisins sem á að ráða (Forseti hringir.) niðurstöðunni þegar þetta er metið?