144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningar hans og vangaveltur. Þetta með skaðabótaréttinn, og réttindi þeirra sem telja sig hafa verið hlunnfarna í þessu sambandi, finnst mér vera óljóst. Sveitarfélögin hafa verið að reyna, meðan þessi vinna hefur átt sér stað innan atvinnuveganefndar, að ná til ríkisvaldsins um sátt í þessu máli. Ég held að það sé rétt að ég veki athygli á því erindi sem við fengum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga nýlega. Þar var viðrað orðalag sem fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga kynntu í ráðuneytinu. Það hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnum ber við næstu endurskoðun aðalskipulags, og eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, að ákveða legu og útfærslu flutningslínu í skipulagi að fenginni tillögu flutningsfyrirtækisins í samræmi við kerfisáætlun. Heimilt er þá sveitarstjórn að fresta ákvörðun um landnotkun samkvæmt kerfisáætlun í allt að 10 ár að höfðu samráði við flutningsfyrirtækið.“

Þetta er tillaga að málamiðlun. Ég ætla ekki að segja að þetta sé eitthvað sem leysi málið, en menn eru þarna að rétta fram sáttarhönd sem ég held að hljóti að þurfa að gera. Eins og málið er búið núna er þetta allt of mikið og nær eingöngu á forsendum flutningsfyrirtækisins. Það er mjög óeðlilegt í svona stóru máli sem mikill ágreiningur er um og mun verða um, um lagningu raflína í framtíðinni, hvort það eigi að vera í jörðu eða (Forseti hringir.) yfir viðkvæm svæði. Ég ítreka það að ég legg áherslu á að þetta verði tekið aftur inn og vísa til þess sem segir í nefndaráliti mínu.