144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hætta mér út í að fara yfir það hvaða kvikmyndapersóna mér dettur í hug í þessu efni. Hv. þingmaður veltir fyrir sér hvernig vinnulag er verið að leggja upp í hér. Það er því miður ekki þannig að það sé verið að leggja upp í það hér, eins og kom fram í máli þingmannsins, heldur er hér orðið nokkurt þrástef í vinnu meiri hluta hv. atvinnuveganefndar, sérstaklega formannsins, með upphlaupunum í kringum rammaáætlun og með þeim vinnubrögðum sem hér eru kynnt til sögunnar. Mig langar að spyrja almennt hvert eigi að vera hlutverk umhverfis- og samgöngunefndar sem umsagnaraðila, t.d. við vinnu að því er varðar náttúrupassa. Er tætarinn bara stöðugt í gangi? Stendur til að hlusta eftir einhverjum sjónarmiðum? Ég er mjög hugsi, virðulegur forseti, hvað þetta varðar, hvaða stöðu atvinnuveganefndin tekur sér hér og hvort það sé góðum vinnubrögðum í þinginu til framdráttar.