144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum. Umræðan hefur verið um margt merkileg og gagnleg, en eftir að hafa hlustað á hana í framhaldi af því sem maður heyrði þegar málið var flutt upphaflega þá vekur það undrun að við skulum vera komin í þá stöðu að hér sé allt komið í bál og brand út af þessu máli.

Það hefur ýmislegt skýrst en það hefur líka komið í ljós að ekki hefur verið unnið vel að málum að sumu leyti, vegna þess að þær 200 blaðsíður af athugasemdum sem komu virðast ekki hafa skilað sér í umræðu í því nefndaráliti sem liggur fyrir frá hv. atvinnuveganefnd. Það hefur líka verið upplýst að umsögn sem beðið var um frá umhverfis- og samgöngunefnd hefur ekki skilað sér til atvinnuveganefndar eða menn hafa ekki talið ástæðu til að bíða eftir henni áður en þeir skiluðu nefndarálitinu. Mál sem að svo miklu leyti fjallar um umhverfismál og málefni sveitarfélaga en er sent inn í atvinnuveganefnd og síðan er þar málamiðlun og samkomulag um að það fari líka til umsagnar hjá umhverfis- og samgöngunefnd, og að málið skuli vera afgreitt úr nefnd án þess að það álit sé tekið sérstaklega fyrir, bæði frá meiri hluta og minni hluta, slíkt vekur manni bæði furðu og tortryggni gagnvart afgreiðslu málsins.

Ég sat sem varamaður í umhverfis- og samgöngunefnd daginn sem málið var tekið úr atvinnuveganefnd. Ég spurði einmitt um það og ræddi stöðuna hvort það væri ekki rétt skilið hjá mér að málið væri að fara frá atvinnuveganefnd kl. hálfeitt um daginn. Þá var ekki búið að leggja fram nein drög eða neina umfjöllun, hvorki í umhverfis- og samgöngunefnd né í atvinnuveganefnd. Það verður að teljast afar merkilegt og komið hefur í ljós að það hafi verið hrikalega óheppilegt að taka málið úr atvinnuveganefnd áður en búið var að fjalla um nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar.

Ég sagði að sorglegt væri að fylgjast með því hvernig málið er komið vegna þess að við erum að tala um mál sem er lagt fram með góðum hug. Verið er að innleiða hér Evrópusamþykktir, reynt er að innleiða langtímahugsun, verið er að reyna að skerpa á hvernig eigi að fjalla um slík mál, tryggja aðkomu allra og tryggja að umræðan verði sem allra faglegust. En nú er málið sem sagt komið út þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. ráðherra, sem flytur málið, um að ekki liggi það mikið á og menn verði frekar að vinna málið vel og ná um það sátt. Málið er komið úr nefnd en það er nánast ekki sátt um eitt eða neitt.

En við skulum ekki stilla því þannig upp að það sé ósátt á milli meiri og minni hluta í þinginu. Ósættir eru ekkert síður við stofnanir frá ríkinu, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, samtök í ferðaþjónustu. Það er eiginlega sama hvar maður kíkir — ég hef ekki lesið allar þessar 200 blaðsíður af því að ég hef ekki verið að fjalla um þetta sérstaklega í nefndinni — fullt er af athugasemdum og mjög margar og langflestar sýnist mér vera athugasemdir sem mundu gera málið betra án þess að spilla því á nokkurn hátt. Þá spyr maður: Hvaða hvatir liggja að baki ef menn hraða málinu og reyna að koma því áfram á þann hátt að um það verði ósátt, hvaða hvatir liggja þar að baki? Er einhver dulinn agent, ef ég má orða það þannig, þ.e. einhverjir undirliggjandi þættir sem hafa ekki komið fram? Það er ekkert sem kallar á að málið klárist í dag eða á morgun og þess vegna verðum við að taka undir þær óskir, eða ég vil taka undir þær óskir sem hér hafa komið fram, að málið fari til nefndarinnar þar sem menn fari ítarlega yfir þær athugasemdir sem hafa komið fram í ræðum, eru í umsögnum, og svari því málefnalega skriflega í nefnd, eins og hefði átt að gera í nefndaráliti, hvaða rök eru gegn þessum atriðum.

Ég sagði að málið væri í upphafi vel meint og hefði ekki átt að vera neitt tilefni til ágreinings. Það er verið að ræða um og stilla saman strengi um viðkvæma þætti að vísu, sem varðar það hvernig menn umgangast náttúruna en einnig er fjallað um hvernig við afgreiðum málið á sem lýðræðislegastan hátt. Hvernig tryggjum við aðkomu valinna fulltrúa að ákvarðanatöku? Sú gagnrýni hefur einmitt komið mjög harkalega fram í umræðunni; af hverju núna þegar verið er að setja fram bæði langtímaáætlun og áætlun til skemmri tíma í sambandi við raforkuna eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu? Verið er að gera kerfisáætlanir annars vegar til langs tíma og hins vegar til skemmri tíma, sem eru ekki nema til þriggja ára. Af hverju setja menn þá ekki kerfið þannig upp að við nýtum okkur þá ferla og það form sem hefur verið innleitt varðandi aðrar áætlanir af svipuðum toga? Ef það er eitthvað sem veldur okkur vandræðum þá er það í svona málaflokkum, geðþóttaákvarðanir sem ávallt munu leiða til stríðsástands og deilna ef þær eru ekki hugsaðar langt fram í tímann á hverjum tíma. Í þessu er ákvæði um að heimilt sé að taka upp ákvæðin utan við, sem sagt ef eitthvað sérstakt kemur upp á þá getur maður borið það undir þingið, og þannig ætti það að vera og því fylgt eftir og breytt o.s.frv. Meginhugsunin ætti auðvitað að vera sú að við værum að vinna eftir langtímaáætlun sem væri til tíu ára, framkvæmdaáætlun til þriggja ára og sú áætlun væri unnin af þar til bærum aðilum en lögð fyrir þingið til samþykktar með svipuðum hætti og samgönguáætlun. Þar með fengist umsögn um allar þær tillögur, umræður fengjust opinberlega og þá gætum við vænst þess að við næðum betur saman um einstaka þætti.

Nei, einhverra hluta vegna reyna menn að fara skemmri leið. Menn taka völd af ákveðnum stofnunum sem almennt hafa valdið hvað varðar skipulagsmál, við tökum af sveitarfélögunum skipulagsvald, við færum Orkustofnun vald, bæði til að gera áætlun og hafa eftirlit með henni, allt saman hlutir sem brjóta gegn okkar betri vitund um hvernig eigi að fara með slík mál eða að minnsta kosti því sem menn í orði kveðnu hafa talað um á undanförnum árum, þ.e. að vanda betur lýðræðislega umfjöllun, reyna að leiða mál sameiginlega til lykta og reyna að koma fram með einhverjar tillögur sem sátt getur verið um.

Ég sagði: Eru einhver önnur sjónarmið á bak við? Ég hef á tilfinningunni í þessu máli, eins og stundum áður, að þegar menn tala um sátt og tala um að leiða mál til lykta þá eigi þeir sumir hverjir ekki neina niðurstöðu en að sáttin sé við þá sjálfa en ekki við fjöldann eða heildina. Það er ekki leið til sátta. Við sjáum umræðuna um sjávarútveginn þegar menn tilkynna að enginn vandi sé að ná sátt. Sáttin felst alltaf í því að allir verði sammála þeim sem verið er að tala um en ekki að fara einhverja málamiðlun eða finna bestu lausn sem hentar flestum. Þannig lítur málið við mér og þess vegna er ég kominn í ræðustól í þessu máli þó að það heyri ekki undir þær nefndir sem ég er að vinna með alla jafnan.

Það sem er athyglisvert við málið líka, og er mjög athyglisvert einnig við mörg önnur mál sem hafa verið að koma hingað inn á þessu þingi, er reglugerðarvaldið, þ.e. heimildir til að fela ráðherra í gegnum reglugerð að taka ýmsar ákvarðanir. Ég hef gagnrýnt það í menntamálum og á fleiri stöðum og það hefur raunar verið gagnrýnt í gegnum athugasemdir, m.a. frá umboðsmanni Alþingis ef ég man rétt, og fleiri aðilum að ef menn ætla að vera með svona víðtækar reglugerðarheimildir verður að vera lagastoð fyrir reglugerðinni, þ.e. í lögunum verða að vera klár fyrirmæli hvers eðlis reglugerðin eigi að vera eða, sem væri að mörgu leyti eðlilegra, að reglugerðirnar fylgdu með frumvörpum og þær væru lagðar fram um leið, eins og hefur verið gert í nokkrum tilfellum. Þetta er gagnrýnt m.a. af umsagnaraðilum. Það eru einhver svört spil, við fáum ekki að sjá á þau, við vitum ekki hvað er í spilunum, við vitum ekki hvað liggur á bak við, hvaða ákvarðanir á að taka eða hver á að taka þær. Við vitum að setja á reglugerð og þegar tortryggni er til staðar er þetta afar vond leið til að leiða mál áfram.

Í þessu felst svo þetta töfraorð sem er notað líka í öllum svona lögum, þ.e. samráð, það á alls staðar að hafa samráð. Ég verð að viðurkenna að þetta orð er að verða merkingarlaust vegna þess að orðið samráð þýðir allt frá því að vera bara eitthvert samtal einu sinni yfir í það að menn vinni saman, menn taki þátt í vinnunni og allt þar á milli. Það kemur mjög skýrt fram að samráð hafi átt að vera um hitt og þetta en ákvörðunin liggur svo hjá einhverjum ákveðnum aðila. Það liggur eiginlega í orðunum í frumvarpinu að menn þurfi ekki endilega að taka mark á þessu samráði, það á kannski bara að hlusta einu sinni eða ræða við fólk. Það vekur samt athygli að sumir stórir aðilar sem hafa haft skoðanir á því til dæmis hvernig raflínur fara um landið, eins og samtök í ferðaþjónustu, kvarta yfir því í umsögn sinni að samráð hafi ekki verið haft við þau, aðilar sem eru kannski talsmenn þeirra sem vinna í einni stærstu atvinnugrein Íslands í dag. Þeir vita að við erum að selja landið, þ.e. ferðamönnum aðgang að landinu vegna náttúrunnar, vegna þess hversu fallegt er hér, líka vegna sérstöðu landsins fyrir það hvað við eigum mörg ósnortin svæði og þeim mun frekar vildi maður þá sjá að menn fengju ráðleggingar frá þeim aðilum hvernig við höguðum okkar málum.

Það er líka gagnrýni hér til dæmis um það sem ég hafði ekki heldur hugsað út í í sjálfu sér, þ.e. í greinargerðinni og í umræðunni um frumvarpið, að vitnað var í skýrslu sem var lögð fram um raflínur, hvort þær ættu að vera í lofti eða í jörðu og hvað kostnaðurinn væri í kringum það o.s.frv. Vitnað er í að byggja eigi á þeirri skýrslu, en á hvern hátt? Er búið að samþykkja þá niðurstöðu sem var í einhverri skýrslu sem lögð var fram? Er hún orðin forsendan? Er það kannski eins og í sjávarútveginum þar sem menn nota orðið sáttanefnd, sem ég veitti forstöðu, alveg eins og þeir eigi hugtakið og búa til alls konar túlkanir sem hafa ekkert að gera með það sem þar var unnið? Var sú sáttatillaga einhvers staðar lögð fyrir þingið til ákvörðunar áður en menn færu að nota hana með þeim hætti sem þeir gera í dag? Þetta er ávísunin á þá óeiningu sem við horfum upp á hér. Við horfum upp á hana í umræðunni í dag og með vaxandi þunga. Við sjáum það hver á fætur öðrum á þingmönnum, bæði frammi í matsal þar sem við ræðum málin utan dagskrár og svo inni í þingsal, þá hafa menn einmitt sagt að þeir séu ekki tilbúnir til dæmis að afsala sveitarfélögunum skipulagsvaldinu með þeim hætti sem gert er hér. Það eru aðrir aðilar sem hafa sagt og sumir af þeim sömu sem segja: Það kemur ekki til greina að afgreiða kerfisáætlun öðruvísi en hún verði endanlega afgreidd á þinginu.

Ef við ætlum að koma þessu máli í gegn held ég að mjög skynsamlegt væri að taka það upp vegna þess að það skiptir miklu máli. Við reyndum að búa okkur til almenna vinnureglu um það hvernig unnið er í málum einmitt út frá reynslunni í samgönguáætlun og raunar eins og hugmyndin var á bak við rammaáætlun, þó að sú hugmynd hafi verið skemmd af núverandi stjórnvöldum með því að henda út af borðinu ákveðnum hlutum vegna þess að þeir ætla með þjösnagangi að koma einhverjum ákveðnum sjónarmiðum áfram.

Við ræðum um frumvarp sem kemur fram, eins og ég sagði áðan, samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, en í því felst að settar eru reglur um framleiðslu, flutning, dreifingu og afhendingu rafmagns, auk ákvæða sem snúa að neytendavernd, sem er auðvitað mjög mikilvægt í sambandi við raforkulög. Tekið er fram að leggja skuli fyrir þær áætlanir sem ég nefndi áðan með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku, stefnu stjórnvalda um lagningu raflína o.s.frv. Þetta á Orkustofnun að ákveða án þess að nokkur geti gert athugasemd við það nema með einhverjum formlegum kærum áfram. Þetta á ekki að koma hingað inn þegar búið er að afgreiða það. Þá spyrja Skipulagsstofnun, sveitarfélögin og aðrir: Hvernig getur það verið?

Ég geri mér grein fyrir að ágreiningur hefur verið um línulagnir á ákveðnum svæðum. Ég skil vel að menn vilji finna einhverjar leiðir til að leiða mál til lykta. Þá á ég við ágreining eins og við höfum séð hjá Vegagerðinni um Teigsskóg og sambærileg mál. Við höfum fylgst með því að í Húnavatnssýslum og í Skagafirði hafa menn haft fyrirvara um línulagnir, en hvers vegna skyldi það vera? Ég held að hollt sé að hugsa aðeins um það. Við höfum verið hér með þingsályktunartillögu um aðgerðir til að bæta atvinnuástand í Húnavatnssýslum. Tillagan kemur upphaflega frá hv. þingmanni, núverandi hæstv. forseta Alþingis, um að skoða alla kosti til að nýta orkuna heima í héraði. Verið er að stækka Blönduvirkjun. Við vitum að þar er verið að framleiða umtalsvert mikla orku sem meira og minna fer öll út af svæðinu. Þannig var ekki þegar virkjunin var gerð á sínum tíma og menn virkjuðu Blöndu. Þá var loforð um að reyna að nýta orkuna heima í héraði. Við vitum líka að veruleg töp eru í kerfinu þegar menn senda orku langar leiðir. Er nema von að þessi sveitarfélög vilji hafa eitthvað um það að segja þegar verið er að leggja lagnir þvers og kruss yfir svæði þeirra til að koma orkunni í burtu eða á milli svæða fram hjá þeim svæðum? Það sama gildir í Skagafirðinum. Þá ætla menn bara að leysa það, vegna þess að óþægilegt er að hafa slíkan ágreining og að menn hafi ekki fundið formið til að komast að niðurstöðu, en þá ætla menn bara að leysa það með því að setja valdboð um að það megi taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum.

Ég byrjaði á að segja að ekkert athugavert væri við það að við reyndum að finna leið til að leiða svona mál til lykta en þó ekki þannig að einstök smá sveitarfélög, þó að ég ætli ekki að gera þessi tvö svæði að smáum sveitarfélögum, geti stöðvað til langs tíma framfaramál sem snúa að hagsmunamálum þjóðarinnar eða heillar byggðar. Það er ekki hægt að afgreiða þau með svo einföldum hætti að henda ákvörðunarvaldi í skipulagsmálum út af borðinu með raforkulögum án þess að finna þá einhverjar aðrar leiðir til að leiða málið til lykta, aðra leið en Orkustofnun. Orkustofnun sem telur sér skylt að leggja fram til dæmis í umhverfismálum og í virkjunarmálum alla þá kosti sem koma til greina, alla þá kosti sem hugsanlega verður hægt að virkja og tekið fram í umfjölluninni að þeir líta ekki einu sinni á að það sé þeirra hlutverk að skoða umhverfismál. Það eru aðrir sem eiga að gera það. En hvar er sú umfjöllun? Jú, í umhverfismati. En engu að síður á áætlunin að afgreiðast af Orkustofnun og síðan á að hafa eftirlitið þaðan, ein og sér. Þetta er ekki líklegt til að eyða tortryggni.

Ég segi það sama og ég byrjaði á. Það er sorglegt að við skulum vera með þetta mál í svona ágreiningi vegna þess að við viljum auðvitað öll nýta orkuna í landinu. Við viljum gera það á sem hagstæðastan hátt, en við viljum líka nýta þær auðlindir sem felast í náttúru Íslands og tapa ekki til frambúðar náttúruperlum eða öðru slíku sem eru núna ein stærsta auðlind sem skapar okkur hvað mestan gjaldeyri í landinu í dag. Þess vegna treysti ég á að menn taki málið aftur til nefndar, ég veit að óskað hefur verið eftir því þannig að það fer þangað, þar verði ekki bara einhver sýndarafgreiðsla þar sem á öðrum hádegisfundi verði málinu hent út aftur og sagt að nefndin sé búin að fjalla um þetta aftur. Ég treysti svo sem hv. atvinnuveganefnd til að skoða málið. Við skulum vænta þess svo ekki þurfi að flytja frávísunartillögu á milli umræðna vegna þess að þetta er ekki mál sem ætti að vera hér í ágreiningi.

En til að taka þetta aðeins saman; þetta er jákvætt mál með háleit markmið, átti að vera til framdráttar í umhverfis- og nýtingarmálum, átti að leiða í farveg hvernig við stöndum að því að ákveða raforkuvirki í landinu, flutningsleiðir og annað slíkt. Við vitum að þetta er viðkvæmt mál, er mál sem skiptir miklu fyrir umhverfi og nýtingu. Þá getum við ekki leikið okkur að gera ágreining um skipulagsvald sveitarfélaga. Við getum ekki leikið okkur að taka einhverja áhættu hvað varðar umhverfissjónarmið. Við getum ekki flutt ákvörðunarvaldið frá kjörnum fulltrúa til Orkustofnunar eða einhverrar ákveðinnar stofnunar sem er í andstöðu við jafnvel sambærilegar stofnanir innan kerfisins. Við verðum að tryggja aðkomu Alþingis og tryggja að málið fái faglega umfjöllun með umsögnum svipað og komu hér, þar sem 200 blaðsíður komu í umsögnum um málið sem við getum ekki bara ýtt út af borðinu og sagt: Það var gaman að heyra í ykkur en við tökum ekkert mark á ykkur. Það eru ekki boðleg vinnubrögð fyrir fagnefnd. Ég undirstrika það sem ég sagði áðan að samráð, samstarf og lausnir, sameiginlegar lausnir, verða ekki fundnar með ofbeldi.