144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:26]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, þetta mál er að öllu leyti vanbúið. Nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar sem komið hefur í ljós að er samið áður en umhverfis- og samgöngunefnd skilaði umsögn sinni þar sem gerðar eru verulegar athugasemdir, nefndarálit þar sem í engu er tekið tillit til þeirra alvarlegu athugasemda sem eru gerðar við málið á þeim 200 blaðsíðna umsögnum sem bárust um málið, sýnir að málið er ekki tilbúið fyrir 2. umr. Ég ítreka við virðulegan forseta að hlé verði gert á 2. umr., nefndin taki málið aftur til umfjöllunar og geri atlögu að því að bregðast við þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram. Við erum búin að fara yfir hana ítarlega í mörgum ræðum. Því hefur í engu verið svarað af fulltrúum meiri hlutans í atvinnuveganefnd hvernig nákvæmlega þau hafa séð fyrir sér að eigi að bregðast við þessari alvarlegu gagnrýni. Ég get ekki annað séð (Forseti hringir.) en að þessari umræðu verði ekki lokið hér í kvöld. Það væri langbest að gera hlé á umræðunni og fallast á það að nefndin tæki málið aftur til skoðunar því að þessi vinnubrögð eru ekki boðleg á Alþingi.