144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt að þegar hv. formaður atvinnuveganefndar ákveður að koma hingað, láta svo lítið að heiðra okkur með nærveru sinni hér í nokkrar mínútur í lok fundar, skuli hann koma hingað til að hrauna yfir samþingmenn sína í umhverfis- og samgöngunefnd í stað þess að taka efnislega umræðu um málið. Hann hefur ekki sagt eitt einasta efnislegt orð um þetta mál. Þetta er eitt rýrasta nefndarálit sem ég hef nokkurn tímann séð miðað við þær athugasemdir sem komu við málið. Menn gera engar tilraunir í nefndaráliti til að svara þeim athugasemdum sem koma um málið á 200 síðum af umsögnum við það og síðan kemur hv. þingmaður hingað eingöngu til að hrauna yfir félaga sína og segja að þeir hafi ekki unnið vinnuna sína.

Virðulegi forseti. Það var ekki verkefni umhverfis- og samgöngunefndar að taka töku tvö af öllum gestaganginum til hv. atvinnuveganefndar. Okkar hlutverk var að skoða þá þætti (Forseti hringir.) sem að umhverfis- og samgöngunefnd snúa og gestagangurinn til okkar endurspeglaði það. Hv. þingmaður (Forseti hringir.) getur ekki staðið hér og talað með þessum hætti. Hæstv. forseti á að stoppa þennan fund og ræða við formann atvinnuveganefndar og sömuleiðis (Forseti hringir.) formann umhverfis- og samgöngunefndar og reyna að leiða þetta mál til lykta með einhverjum almennilegum hætti. Svona getum við ekki rætt málið áfram.