146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsögu hans fyrir nefndaráliti meiri hlutans. Það er margt sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í. Ég ætla að byrja á því að fá að spyrja hann nánar út í það sem hann sagði áðan. Þar sagði hann í raun: Þessi áætlun sem markar stefnu ríkisstjórnarinnar til fimm ára er samt áætlun, þannig að við erum ekki búin að taka neinar ákvarðanir um virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. En eigi að síður er það svo, lesi maður nefndarálit meiri hlutans, að þar er í raun verið að leggja til að falla frá áformum um að færa ferðaþjónustuna upp í efra þrep á virðisaukaskatti á miðju ári og það er verið að leggja til að leið komugjalda verði skoðuð í staðinn. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hæstv. fjármálaráðherra, sem hefur kallað komugjöldin hinn eina sanna landsbyggðarskatt og að ekki eigi að hvika í neinu frá áformum um hækkun á virðisaukaskatt á ferðaþjónustu: Er eining í stjórnarmeirihlutanum um þá tillögu? Sem ég get ekki skilið. Þó að meiri hlutinn leggi hér til að tillagan (Forseti hringir.) sé samþykkt óbreytt þá er allt sem lesa má úr nefndarálitinu og heyra má á ræðu hv. þingmanns á þann veg að meiri hlutinn er ekki að leggja til að tillagan verði samþykkt óbreytt.