146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt, það eru fleiri en eitt efnahagssvæði í landinu og víða úti á landi er eins og það megi aldrei gera neitt því að það er annaðhvort of mikil þensla eða samdráttur hjá ríkinu og það bitnar auðvitað á veikburða svæðum úti á landi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í hugmyndir um sölu og einkavæðingu á flugstöðinni, hvernig henni hugnast sú einkavæðing. Er þetta ekki áframhaldandi tilhneiging til að selja mjólkurkúna og standa svo uppi strippaður í framhaldinu, eins og hægri menn hafa verið að gera víða varðandi stjórn í efnahagsmálum, hvort sem það er í sveitarfélögum eða annars staðar?

Varðandi þær hugmyndir að setja pólitíska stjórn yfir Landspítalann, er verið að reyna að setja eitthvert lok yfir þá umræðu og gagnrýni sem komið hefur frá heilbrigðisyfirvöldum á Landspítalanum, að þeir fjármunir sem honum eru ætlaðir dugi ekki fyrir (Forseti hringir.) eðlilegum framgangi í heilbrigðismálum?