146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég held að ég hafi næstum því getað tekið undir öll orð hennar. Mér fannst hv. þingmaður lýsa vandanum í þeim málaflokkum sem heyra undir velferðarnefnd ágætlega. Jafnvel þó að hv. þingmaður hafi gagnrýnt að ekki væru nægilega miklar upplýsingar til að geta áttað sig vel á hlutunum vitum við sem höfum fjallað um málið og hlustað og lesið umsagnir að víða er pottur brotinn.

Það sem mig langaði að spyrja um er skortur á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Í McKinsey-skýrslunni er skemmtileg mynd, og vill til að ég man að hún er á blaðsíðu 45, sem sýnir hvar þörfin er mest fyrir hjúkrunarrými og hvar biðtíminn er lengstur. Það er á Suðurnesjum, þar er biðtíminn langlengstur, og síðan á höfuðborgarsvæðinu. En það er ekki brugðist við því, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Það er aðeins helmingur af þeim plássum sem reiknað er með að þurfi til ársins 2020 sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun. En eftir stendur að veikt, aldrað fólk bíður eftir plássum og þjónustu. Þjónustan lendir á einhverjum. Í lögum um opinber fjármál er ekki bara leitt í lög að búa eigi til fjármálaáætlun til næstu fimm ára og setja fjármálastefnu heldur á líka að meta ákvarðanir stjórnvalda út frá kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð. Ég spyr hv. þingmann (Forseti hringir.) á hverjum hún telji að það muni bitna að vanrækja þjónustu við aldraða og hvernig matið yrði ef litið væri út frá kynjaðri hagstjórn.