146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar. Það er bara verið að sópa vandamálunum undir teppið. Það lítur alltaf út eins og það sé verið að gera eitthvað en það er aðeins verið að hrinda vandamálunum áfram inn í framtíðina. Það er ekki geta til að takast á við þau akkúrat núna eða horfast í augu við þörfina. Ég sé að þetta er gegnumgangandi á öllum málefnasviðum velferðarnefndar. Það er aldrei gengið nægilega langt, aldrei skoðaður sá samfélagslegi kostnaður framtíðarinnar sem kemur til með að verða ef við höldum áfram að horfa í hina áttina og leyfa þessum vandamálum að grassera áfram. Til dæmis með NPA, þarna er komin þjónusta sem talin hefur verið sjálfsögð réttindi fatlaðs fólks og samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og verið er að setja upp kvóta. Það eru alls ekkert allir sem fá þá þjónustu. Og það þykir í lagi. Þetta er spurning um grunnhugmyndafræði sem mér þykir ofboðslega furðuleg og virðist undirliggjandi og ráða ríkjum og hafa lengi gert. Þaðan kemur þessi uppsafnaði vandi, eins og það sé sjálfsagður hlutur í kerfinu að alltaf séu einhverjir undir. Það sé aldrei hægt að hafa það þannig að allir hafi það gott af því að það er ekki í eðli samfélagsins eða mannsins að geta búið til þannig samfélag. Mér finnst það furðulegt. Auðvitað er það stór kostnaður inn í framtíðina að afgreiða þetta ekki núna. Við þurfum að finna leið til að búa til gnægt þannig að við getum úthlutað réttindum og auðlindum jafnt á alla í þessu landi. Við erum pínkulítil þjóð. Mér finnst til skammar að við getum ekki gert það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)