146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:50]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil einnig taka undir orð hv. þingmanns þegar hún talar um áhyggjurnar af löggæslunni í landinu. Mig minnir að það hafi verið 2015, frekar en 2016, að ég fékk skriflegt svar um fjölda mála á hvern lögregluþjón sem snúa að einstaklingum með erlenda kennitölu og eins fjölda ferðamanna á hvern lögregluþjón. Þetta hefur vaxið margfalt á undanförnum árum. Álagið á löggæsluna í landinu er þannig að við getum ekki búist við að þeir sinni með fullum krafti aðgerðum gegn ofbeldi, gegn ofbeldi gagnvart börnum eða gegn heimilisofbeldi. Þess vegna finnst mér augljóst að við þurfum að leggja peninga sérstaklega í þá málaflokka. Við verðum að efla löggæsluna í landinu til að hún geti sinnt öryggi íbúanna.

Samfylkingin hefur líka gert (Forseti hringir.) breytingartillögu hvað löggæsluna varðar. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér hana og spyr í leiðinni hvaða leiðir við ættum að grípa til til að bæta úr þessari stöðu.