146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er meingallað fyrirkomulag að líta alltaf á fjárfestingar hins opinbera sem eitthvert hagstjórnartæki og skrúfa þær upp eða þess vegna niður. Þær þurfa sem allra mest að vera jafnar og reglulegar af því að við þurfum að viðhalda innviðunum og passa upp á eignir samfélagsins. Í öðru lagi skiptir miklu máli hvernig staðið er að því að fjárfesta. Augljósasta reglan er sú að ef þú ætlar að auka fjárfestingar, sérstaklega í þöndu hagkerfi, verðurðu að fjármagna hverja krónu með nýjum tekjum. Alveg augljóslega. Þá tekurðu fjármuni úr umferð á móti því sem þú setur til baka út í fjárfestingarnar. Það þarf ekki að hafa nein óskapleg þensluáhrif nema þá þannig að vinnumarkaðurinn sé spenntur og allt það. Í þriðja lagi er það þá að dreifa fjárfestingunum. Hv. þingmaður nefnir landsbyggðina. Ætli hún sé nú að drepa menn þenslan víða á Vestfjörðum eða Austfjörðum eða hvar það væri. Þá hef ég sagt: Þá skulum við reyna að dreifa þeim fjárfestingum og ráðast í lítil og meðalstór verkefni. Nóg vantar nú upp á viðhald malarveganna og annað slíkt. (Forseti hringir.) Það hefur engin sérstök þensluáhrif á fasteignamarkað eða mannvirkjagerð hér á höfuðborgarsvæðinu þótt við gerum aðeins betur í vegagerð í Bárðardal.