146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru nú nokkuð stór mál. Í fyrsta lagi um sveitarfélögin: Þau kvarta undan því sjálf og hafa sagt að sú afkoma sem þeim er ætluð í fjármálastefnu í vetur og aftur hér sé beinlínis óraunhæf. Varðandi samgöngumálin eru þau nátengd fjárfestingastiginu. Það er ósköp einfaldlega þannig að fjárfestingastig hins opinbera er allt of lágt. Það er niður undir helmingi af sögulegu langtímahlutfalli. Ætli ríkið sé ekki 1,4–1,6% af vergri landsframleiðslu? Það leiðir ekki af því að ríki og sveitarfélög til samans nái 2% af vergri landsframleiðslu í fjárfestingum. Ríkið eitt þarf 2–2,5% að meðaltali til þess að halda sæmilega í horfinu með sína innviði. Það er okkar stóri vandi. Og samgöngurnar, sérstaklega vegagerðin, langstærsti málaflokkurinn, og hefðbundið stærsti fjárfestingarliður ríkisins, sýpur auðvitað rosalega seyðið af þessu. Það er bara algerlega ófullnægjandi (Forseti hringir.) sem í það er varið. Það óskiljanlegasta er að það er sirka 8 milljarða slaki í innheimtu á mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar.