146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:40]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Nú vitum við, það stendur í fjármálaáætluninni, að við horfum fram á eitt lengsta hagvaxtarskeið lýðveldistímans. Ef við skoðum hagvaxtarskeiðin kemur í ljós að þetta er kannski eitt af þeim lengstu en það er í fjórða sæti ef þessi fordæmalausi vöxtur heldur áfram, eða kannski ekki fordæmalausi í samanburði við söguna, alveg út allt tímabilið. Ástæðan fyrir því að ég valdi töluna 0,6% er vegna þess að við höfum fengið það staðfest að ef vöxturinn bregst um meira en 0,5% eru forsendur fjármálastefnunnar sjálfrar brostnar. Við höfum fengið það fram á nefndarfundi hjá okkur í efnahags- og viðskiptanefnd. Það eitt og sér veldur mér töluverðum áhyggjum vegna þess að þá eru ekki forsendur til þess að fjármálaáætlunin standi með nokkru móti undir sér.