148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:18]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir og hæstv. ráðherra sömuleiðis. Þegar við ræðum um barnaverndarmál er mikilvægt að hafa í huga að þetta er sjálfsagt sá málaflokkur sem okkur ber að vanda okkur hvað mest við hér á Alþingi. Ég ræddi í morgun í störfum þingsins tölvupóst sem okkur barst frá samtökunum Olnbogabörnum. Ég minnist á það aftur til að varpa ljósi á hversu alvarleg staðan er, ásamt því að minna á að málefni barna eiga að vera í forgangi og það er okkar að tryggja að svo verði.

Ég fagna því nú að loksins sé að koma fram gæða- og eftirlitsstofnun sem heldur utan um félagsþjónustu og barnavernd, en ég leyfi mér að hafa vissar áhyggjur af því hvort hún verði nægjanleg til þess að vekja traust á milli aðila sem ég tel að sé brostið. Það skortir enn viðunandi úrræði og úrlausnir og ákveðinn samskiptavandi hefur verið til staðar. Að því höfum við m.a. í velferðarnefnd orðið vitni. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2015 var bent á að tryggja þyrfti nauðsynlegt framboð meðferðarúrræða og það er ráðuneytisins að sjá til þess að það verði að veruleika.

Önnur ábending sem mér finnst mjög mikilvæg í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir nokkrum árum var að ráðuneytið þyrfti að bregðast við því að aðgangur að slíkri þjónustu sem á þarf að halda réðist ekki aðeins af búsetu barna.

Ég spyr að lokum: Hver er staðan í dag?