148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:31]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Fátt er samfélögum mikilvægara en velferð barna og nauðsynlegt að öll málsmeðferð og utanumhald barnaverndarmála sé vandað. Staðan í dag er því miður sú að álagið á Barnaverndina er of mikið og oft ómanneskjulegt álag á starfsfólki Barnaverndar. Vegna þessa mikla álags gefst lítill tími til að sinna forvörnum og snemmtækum inngripum.

Það er jákvætt að heyra að endurskoðun sé hafin því að kerfið er hreinlega sprungið. Ég vil nota tækifærið til að hvetja hæstv. ráðherra og sveitarfélögin til að huga sérstaklega vel að starfsaðstæðum félagsráðgjafa og jafnvel setja ákveðinn viðmiðunarfjölda mála á hvern félagsráðgjafa. Sömuleiðis er mikilvægt að huga að því að efla úrræði þannig að hægt sé að nýta þau áður en allt er komið í óefni.

Í því samhengi langar mig til að nefna tvö áhugaverð verkefni þar sem verið er að horfa á snemmtæk inngrip og forvarnir, annars vegar Austurlandslíkanið sem sveitarfélög á Austurlandi standa að. Verkefnið gengur út á að auka samstarf fagaðila, skóla, heilsugæslu og félagsþjónustunnar og felur í sér markvissari ráðgjöf og meðferð í málum einstakra nemenda og fjölskyldna. Þannig er hægt að bæta þjónustu við börn og foreldra og auka samvinnu fagfólks um málefni tengd velferð og námi nemenda frá leikskólaaldri. Þar er lögð mikil áhersla á snemmtækt inngrip sem þegar upp er staðið er mun ódýrara og getur minnkað líkurnar á skaðlegum áhrifum á þroska barnsins.

Salaskóli í Kópavogi hefur svo farið þá leið að ráða félagsráðgjafa í skólann til að starfa sem félagsráðgjafi, m.a. í þverfaglegum teymum, t.d. með þroskaþjálfum, sálfræðingum og auðvitað kennurum, en þannig er hægt að vinna ákveðna forvarnavinnu inni í skólunum sem léttir svo undir með Barnaverndinni. Fleiri skólar hafa farið þessa leið, til að mynda Hraunvallaskóli í Hafnarfirði.

Það væri mjög áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um hvort hann sjái fyrir sér aukinn stuðning við þessi og önnur sambærileg verkefni.