148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:34]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Hún er brýn og þess vegna er tekið á málefnum barna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þar er lögð áhersla á að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa og nefnt sérstaklega að athuguð verði staða barna sem búa við fátækt. Börn verði að setja í forgang í barnvænu samfélagi og stjórnsýslan að vera samþætt í allri nálgun. Við viljum tryggja snemmtæka íhlutun og samfellda þjónustu. Það er markmið ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra Ásmundar Einars Daðasonar.

Málshefjandi er áhugasöm um gagnaöryggi velferðarráðuneytisins, eins og fram kom í ræðu þingmannsins. Upplýsingaleki og gagnatap er einna mesta ógnin sem opinberar stofnanir verða að takast á við. Það er því mikilvægt að vernda þær upplýsingar sem varða ráðuneytin og samskipti við viðskiptavini. Pírötum í þinginu hefur ekki tekist vel upp þegar kemur að trúnaði eða meðferð trúnaðargagna. Meðferð formanns velferðarnefndar í máli fjölskyldu sem tekið var upp í velferðarnefnd er dæmi um óvarlega meðferð tölvupósta nefndarmanna og jafnvel trúnaðargagna. Tölvupóstur sem ég sendi formanni nefndarinnar og nefndarmönnum birtist umsvifalaust í Stundinni en gögn málsins voru birt í því blaði. Lögmaður aðstandenda kom í veg fyrir að formaður nefndarinnar ræddi einstaklega persónulegt mál á opnum fundi í velferðarnefnd. Formaðurinn var komin með málið langt út fyrir eðlileg mörk því að hlutverk nefndarinnar er að ræða stjórnsýslu barnaverndarmála en ekki einstök mál eins og vilji formannsins stóð til.

Virðulegi forseti. Samspil Pírata og Stundarinnar sem lak persónulegum upplýsingum í viðkvæmu máli er áhyggjuefni fyrir Alþingi. Sú krafa er gerð til okkar þingmanna að gæta trúnaðar í störfum okkar og aldrei er mikilvægara að halda trúnað en þegar kemur að viðkvæmum málefnum barna og fjölskyldna þeirra.