148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. málshefjanda fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í henni. Fyrstu og fremstu skyldur barnaverndaryfirvalda snúa að skjólstæðingum þeirra, þ.e. börnunum sjálfum. Réttur þeirra og velferð hlýtur að vera í öndvegi vegna þess að barnaverndaryfirvöld stíga yfirleitt inn í mál á mjög erfiðum og viðkvæmum stundum eða tímum í lífi barna og fjölskyldna þeirra. Það verður að vera tryggt að hagsmunir barnanna séu treystir og að það ríki traust milli aðila sem sinna barnavernd hér á landi. Virða ber það sem vel er gert og ljóst er að ráðherra hefur uppi áform um að endurskoða lög og reglur sem varða þennan málaflokk. Það er vel vegna þess að ekki ríkir traust í dag milli aðila og stofnana sem sinna barnaverndarmálum hér á landi. Það ríkir heldur ekki traust á vinnubrögðum aðila í málaflokknum. Það kemur greinilega fram að almenningur í landinu treystir ekki barnaverndaryfirvöldum eins og nú er háttað.

Naprir vindar hafa leikið um þennan málaflokk og svar hæstv. forsætisráðherra var að setja saman hóp sem á að fara yfir þau samskipti sem þarna hafa verið í skamman tíma. Innan skamms munum við sjá afurð þess hóps en mér vitanlega er ekki inni í þeirri vinnu sérstök athugun á samskiptum ráðherrans við þingið undanfarnar vikur og mánuði. Það er mjög mikilvægt og nauðsynlegt (Forseti hringir.) að þau samskipti séu skýrð og nauðsynlegt að fram komi hvort ráðherra hefur gefið Alþingi réttar upplýsingar í þeim málum síðustu vikur og mánuði og hvort hann hefur sagt þinginu allan sannleikann.