148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg umræða um mikilvægt mál og eins og svo oft í sérstakri umræðu hér í þinginu finnst mér koma fram sjónarhorn og punktar úr ólíkum áttum sem mér finnst skipta máli fyrir málaflokkinn.

Mig langar að nefna sérstaklega það sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson nefndi varðandi það að muna eftir því að sum börn eru fötluð, það má ekki gleymast. Svo fannst mér það sjónarhorn sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson nefndi, sú tillaga að þeir sem hafa reynslu af því að hafa verið innan barnaverndarkerfisins verði dregnir að borðinu við endurskoðun laga, gríðarlega áhugavert innlegg. Ég held að það geti verið þessum málaflokki mjög til góðs og hvet hæstv. ráðherra til að íhuga það, skoða og taka til sín.

Mér finnst mikilvægt að við munum eftir því að börnin sem þurfa á barnaverndarkerfinu að halda eru rosalega ólíkur og þverbreytilegur hópur. Við verðum alltaf að hafa það undir að þau börn eru mjög ólík og þarfir þeirra eru þar af leiðandi ólíkar.

Af því að við erum þessa dagana að tala mikið um persónuvernd og persónuverndarlöggjöfina þá finnst mér ágætt hvernig hæstv. ráðherra fór yfir stöðu mála hvað varðar þá aðila sem sýsla með gögn tengd börnum. Mig langar þó jafnframt að segja að það er rosalega mikilvægt að hugsa sérstaklega um það sem snýr að börnum þegar kemur að persónuverndarmálum og muna að það er ekki bara verið að safna upplýsingum um þau, (Forseti hringir.) heldur er líka mikilvægt barnanna og mála þeirra vegna að upplýsingunum sé miðlað á milli réttra (Forseti hringir.) aðila. Þannig að þetta snýst ekki bara um söfnun gagna, heldur rétta miðlun á réttan hátt.