148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:45]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa góðu umræðu og þau mörgu mjög góðu innlegg sem flutt hafa verið. Mér er vandi á höndum vegna þess að ég hef einungis tvær mínútur og ég veit ekki hvernig ég á að svara þessu öllu á svo skömmum tíma.

Fyrst varðandi það sem ég náði ekki að svara í fyrri ræðu um hver yrðu helstu áhersluatriði Íslands innan barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna ef fulltrúi Íslands kæmist þangað inn. Í mínum huga eru það m.a. réttindi barna til verndar gegn líkamlegu og andlegu ofbeldi og vanrækslu hvar sem er, hvort sem er innan veggja heimilis, skóla, í öðru skipulögðu starfi eða annars staðar, að réttur barna til að lifa í öryggi og friði án ofbeldis og stríðsátaka, réttur barna til menntunar, ekki síst stúlkna, verði virtur, jafnrétti kynjanna tryggt og komið í veg fyrir skaðlega siði eins og barnahjónabönd. Hugað verði sérstaklega að réttindum barna í viðkvæmri stöðu, m.a. á grundvelli fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, trúar og þjóðernisuppruna.

Þetta finnst mér eiga að vera helstu áherslur okkar aðila sem færi þarna inn.

Síðan var komið inn á ýmislegt fleira, til að mynda varðandi starfsumhverfi barnaverndarnefndar, hvort þær ættu að vera stærri og faglegri. Ég held að það sé klárlega nokkuð sem við ættum að skoða og bíður þverpólitískrar nefndar að taka afstöðu til.

Síðan varðandi það úrræði sem boðað var og er að komast á laggirnar. Því miður tók lengri tíma að tryggja það fjármagn sem þurfti. Það er enginn ósáttari við það en sá sem hér stendur, en það er búið að tryggja að 80 milljónir fari á ári til þessa verkefnis sem voru ekki innan ramma félagsmálaráðuneytisins. Vonandi getur það komist eins hratt og mögulegt er af stað.

Ný gæða- og eftirlitsstofnun er þegar tekin við hluta af eftirlitsstörfum. Hún mun taka við frekara eftirliti sem snýr að barnaverndarmálum og það þarf að gerast með lagabreytingu.

Hins vegar vil ég segja í lokin áður en ég lýk þessu vegna þess að ég næ bara ekki að svara fleiri spurningum, ég gæti talað hérna í hálftíma, að við þurfum miklar breytingar í barnaverndarmálum. Þess vegna hef ég talið að á þessu fyrsta ári séum við að afla (Forseti hringir.) gagna og upplýsinga. Síðan vil ég sjá þverpólitíska nefnd taka við keflinu vegna þess að ég hef trú á því að við náum róttækari breytingum ef kerfið fer ekki sjálft í breytingarnar heldur þingmennirnir sem hér eru. Þetta er þverpólitískt mál og við eigum að ná fram breytingum. Það er ekki einhver einn flokkur sem á að eiga það, við eigum öll að vinna að því.