148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

tollalög.

518. mál
[20:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa athugasemd. Ég veit að hann er maður sem sökkvir sér djúpt í þau mál sem hann vill kynna sér og gerir það mjög vel. Ég er sjálfur frelsaður kaffidrykkjumaður, þ.e. ég er óvirkur. Ég hef ekki drukkið kaffi í nokkur ár, besta ákvörðun sem ég hef tekið. Auðvitað þykir mér vænt um fólk sem drekkur kaffi, ekki þar fyrir. Þó að ég talaði í hálfkæringi hér áðan, um að við ættum að hætta innflutningi á súkkulaði, er alvörutónn í því vegna þess, eins og ég sagði áðan, hvernig farið er með þá framleiðendur. Það er einn alþjóðlegur hringur sem ræður um það bil öllu í súkkulaðiframleiðslu og níðist á þessu fólki alveg takmarkalaust.

Við eigum svo sem ekkert endilega að bæta ofan á það með því að tolla þessa vöru umfram aðrar sambærilegar. Út af fyrir sig get ég alveg tekið undir það með hv. þingmanni að ástæða sé til að athuga þennan mismun en bendi þrátt fyrir það á það sem ég sagði áðan, að þetta er einn af þeim hlutum sem mér finnst að við Íslendingar ættum að reyna að vekja máls á á alþjóðavettvangi. Eins og ég segi, við eigum að vera ábyrgir neytendur og við eigum ekki að stuðla að því að hagnast á neyð annarra. Við eigum ekki að hrúga hingað inn ódýrum vörum, t.d. landbúnaðarvörum, í nafni frelsis, sama hvað það kostar aðra. Að því leyti til eigum við líka að horfa til þess hvernig tollskrá Evrópusambandsins er byggð upp. Ég held að menn ættu kannski, sem tala hér hæst um að flytja inn ódýrar landbúnaðarafurðir, að kynna sér hvernig það gengur fyrir okkur að flytja inn til Evrópusambandsins, tollabandalagsins, okkar vörur.