148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

545. mál
[21:06]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál, það kom til kasta þeirrar nefndar sem ég sit í, allsherjar- og menntamálanefndar. Ég er eiginlega kominn hingað upp aðallega til þess að lýsa yfir stuðningi við málið og minna á að bak við þann tyrfna lagatexta sem er á þessu áliti er raunverulegt fólk. Þetta varðar líf og störf raunverulegs fólks og þá ekki bara neytenda. Listsköpun, tónlistarsköpun kannski í þessu tilviki, varðar ekki bara rétt neytenda heldur líka rétt listamanna til að fá sanngjarnan arð af sinni vinnu og geta lifað af list sinni.

Eins og hv. þm. Smári McCarthy minnti okkur á í ræðu sinni búum við við allt annan tæknilegan veruleika en við gerðum áður en heimurinn netvæddist. Tónlistarefni er dreift með allt öðrum hætti en þegar um var að ræða efnislega markaðsvöru í formi platna eða geisladiska og við erum sífellt að bregðast við því. Tæknin hefur haft tilhneigingu til þess að vera dálítið á undan siðvitinu, getum við sagt, maðurinn er einhvern veginn dálítið þannig og kannski eru framleiðsluhættir okkar dálítið þannig að þeir ýti undir að tæknivit okkar, tæknihyggjan, sé á undan siðvitinu. Við finnum upp tækni og tækninni fleygir fram en síðan lötrar á eftir hvernig við eigum að greiða úr ýmsum siðferðilegum álitamálum sem hljóta að koma upp við nýja tækni. Þessi siðferðilegu álitamál varða þá félagsleg réttindi og í þessu tilviki voru það félagsleg réttindi listafólks, sjálfsögð réttindi listafólks til að fá arð af vinnu sinni.

Ég fagna allri viðleitni til að festa í sessi regluverk sem tryggir þessi réttindi listafólks. Ég tel að það sé hér á ferðinni. Landamæri eru hrunin í okkar nútíma, enda er jörðin miklu stærri en við gerum okkur grein fyrir en líka miklu minni en við gerum okkur grein fyrir. Upplýsingar ferðast með miklum hraða á milli heimshorna á örskotsstund og varningur getur líka farið á milli heimshorna með miklu frjálsari hætti en áður var. Það gildir líka um list. Við höfum séð það með veitum eins og Spotify, Netflix og fleirum að fólk vill greiða fyrir efni, fólk vill að neysla þess á list sé sett í formlegri farveg en bara að hlaða niður efni og njóta þess án þess að greiða fyrir það. Upp til hópa er það þannig og mér sýnist að þetta umhverfi leiti sífellt meira jafnvægis.

Ég styð þetta mál. Það komu fram áhyggjur frá réttindasamtökum hér á landi um að það yrði íþyngjandi og of viðurhlutamikið að annast þessa skráningu ef miðað yrði við árið 2018 en gildistakan dróst það lengi að þetta er ekki lengur jafn aðkallandi vandamál og áður eins og kemur fram í nefndarálitinu. Þá kemur fram það mat að íslensk rétthafasamtök séu vel undirbúin undir þær breytingar sem felast í þessari tilskipun.

Ég styð þetta mál.