148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

545. mál
[21:14]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta. Ég vil fyrst segja að ég borga alls ekki glaður fyrir áskrift mína að Spotify vegna þess að mér finnst ég borga svo smánarlega lítið. Ég vildi gjarnan borga að minnsta kosti helmingi meira til að það tónlistarfólk sem gleður mig daglega fái meira fyrir sinn snúð.

Þetta tiltekna mál sem hv. þingmaður vísar hér til, ég hef því miður ekki á takteinum hvernig það er nákvæmlega vaxið. Ég hef það bara ekki í hausnum og hef ekki kynnt mér það sérstaklega, hafði bara, eins og hver annar fjölmiðlalesandi, örlítinn ávæning af því. Ég held að það hafi að einhverju leyti snúist um það að farið hafi verið af stað með þessa þjónustu án þess að viðkomandi hafi verið búinn að ná samningum við forlögin sem höfðu þá einhvern rétt á opinberum flutningi á þessum bókum. Ég treysti mér hreinlega ekki til að svara þessari spurningu. Hér stendur sem sé, um þessa tilskipun, að henni sé ætlað að samræma starfshætti rétthafasamtaka með því að setja samræmdar reglur um starfsramma er varðar stjórnskipulag, skipan fjármála, gegnsæi og upplýsingagjöf. Reglunum er ætlað að tryggja þátttöku rétthafa í ákvörðunarferli rétthafasamtaka og upplýsingaflæði til rétthafa. Það var meðal annars út af svona sem ég minnti á að bak við þetta lagamál sé raunverulegt fólk.