149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

kjaraviðræður.

[10:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef komið hingað upp nokkrum sinnum í morgun til að útskýra fyrir hv. þingmanni og öðrum að tillögur ríkisstjórnarinnar eru sérsniðnar að þeim hópi sem hv. þingmaður segist vera að tala fyrir. Skattbyrðiléttingin er mest hjá þeim sem eru fullvinnandi með rétt rúmlega 300.000 kr. Þar teygjum við okkur sérstaklega með útfærslu á skattkerfisbreytingunni þannig að við náum að létta undir með því fólki. Það er ekki hægt að halda því fram að það sé eitthvert annað eðliseinkenni á þeim tillögum sem hér eru færðar fram. Auðvitað erum við hv. þingmaður sammála út af fyrir sig um að það verður engin sátt í samfélaginu ef stórir hópar eru skildir eftir. Ég held hins vegar að þingmaðurinn hafi rangt fyrir sér þegar hún heldur því fram að það skipti engu máli að horfa til hinna. Ég vek athygli á því að meira eða minna allir kjarasamningar í landinu eru lausir og það mun skipta máli fyrir kennarana, (Forseti hringir.) fyrir sjúkraliðana, fyrir alla iðnaðarmenn og aðra sem eru útivinnandi allan daginn að berjast fyrir því að ná endum saman hvað ríkið ætlar að gera fyrir það fólk.