149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

hætta á verkföllum og leiðir til að forðast þau.

[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, ef ég hef skilið forystu ASÍ rétt, þá er verið í fyrsta skipti í sögunni að tefla fram heildstæðum skattatillögum. Mér er ekki alveg ljóst hvort það er algjör samstaða um tillögurnar innan allra aðildarfélaganna, en það skiptir kannski ekki máli.

Hér nefnir hv. þingmaður að við ættum að vera með prógressíft skattkerfi. Við erum með prógressíft skattkerfi. Menn ræða um að fjármagnstekjur séu hærri á Norðurlöndunum, en það er ekki allt sem sýnist í því, vegna þess að þar eru mjög viðamiklar undanþágur frá almennt hárri prósentu. Og nýleg úttekt sem ég hef látið gera í fjármálaráðuneytinu til samanburðar við fjármagnstekjuskattskerfin á Norðurlöndunum leiðir til þeirrar niðurstöðu að við erum í öllum aðalatriðum með sambærilegt fjármagnstekjuskattskerfi og gildir þar.

En það er hins vegar rétt að ýmsar ástæður eru undirliggjandi eins og leigan, sem hv. þingmaður nefnir, og þar vil ég meina að ríkið hafi á undanförnum árum (Forseti hringir.) verið að stíga stór skref, sérstaklega í félagslegu leiguhúsnæði, og að sveitarfélögin verði að axla ábyrgð á því ástandi, ekki síst í höfuðborginni, þar sem hefur verið gríðarlegur skortur á réttri tegund af (Forseti hringir.) íbúðum.