149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

almenn hegningarlög.

543. mál
[11:57]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Fyrir rúmu ári síðan sameinuðust ríkisstjórnarflokkarnir þrír um það í stjórnarsáttmála sínum að lofa að koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Hæstv. forsætisráðherra hefur kynnt frumvarp um kynrænt sjálfræði, þar sem vissulega er að finna fjölmargar og langþráðar réttarbætur. Ég ætla ekki hér og nú að fjölyrða um það sem betur má fara í því frumvarpi, það er vissulega sitthvað, en flest þar er þó til bóta. En eins og fyrri daginn er eins og hægri hönd ríkisstjórnarinnar hunsi það sem sú vinstri er að reyna að gera.

Nú hefur dómsmálaráðherra lagt fram frumvarp um að þrengja að núgildandi ákvæði hegningarlaga um hatursorðræðu. Sú mikla ósvinna sem hvetur ráðherra til þeirrar breytingar virðast vera hæstaréttardómar þar sem menn voru dæmdir fyrir hatursorðræðu í garð Samtakanna '78 eftir að Hafnarfjarðarbær hafði gert samning við samtökin um hinsegin fræðslu í grunnskólum bæjarins. Greinargerð þessa frumvarps skýrir í löngu máli hvers vegna ráðherra telur nauðsynlegt að þrengja að núgildandi ákvæði um hatursorðræðu. Sú greinargerð er ágætis samantekt, því að þótt það hafi líklegast ekki verið ætlunin staðfestir hún að það er engin — alls engin — ástæða til breytinga á ákvæðinu og það er undrunarefni hvers vegna þetta frumvarp er fram komið.

Í einum þeirra hæstaréttardóma sem virðast hafa hvatt hæstv. ráðherra til breytinga er m.a. rakið að hinum ákærða í málinu sé tryggt tjáningarfrelsi með 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en að gagnstætt réttindum hans standi réttindi samkynhneigðra. Tilvitnun hefst, með leyfi forseta:

„… til að njóta eins og aðrir friðhelgi einkalífs síns samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, svo og jafnræðis og mannréttinda á við aðra án tillits til kynhneigðrar þeirra …“

Hæstiréttur sagði í þessum dómi að ákvæði 233. gr. a í hegningarlögum væru ekki aðeins nauðsynleg og samrýmanleg lýðræðishefðum heldur væri jafnframt með þeim gætt samræmis við löggjöf skyldra ríkja og farið að samþykktum alþjóðastofnana sem Ísland ætti hlut að, um að stuðla bæri að jöfnuði manna í þessu tilliti og veita að auki þeim jöfnuði refsivernd.

Tilvitnun hefst, með leyfi forseta:

„Á löggjafanum hvílir ekki aðeins sú skylda að haga lögum á þann hátt að tjáningarfrelsi sé ekki skert í ríkara mæli en svigrúm stendur til eftir kröfum 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Löggjafanum er einnig skylt að tryggja með lögum einkalífi manna friðhelgi, sbr. 1. mgr. 71. gr. hennar, og stuðla jafnframt að vernd þeirra, sem hætt er við að sæti vegna aðstæðna sinna eða sérkenna útbreiddu aðkasti eða andúð, og gæta þar með allsherjarreglu. Þegar horft er til þessara hagsmuna, sem meðal annars 233. gr. a almennra hegningarlaga er sett til að vernda, verða þeir samkvæmt lýðræðishefðum og eftir heildstæðu mati á öllum atvikum málsins að vega þyngra en óheft frelsi ákærða til að tjá skoðanir sínar á þann hátt sem hann gerði. Er þá jafnframt tekið fullt tillit til þess að tjáningarfrelsi hans verði ekki skert í ríkara mæli en nauðsyn ber til svo að náð verði því lögmæta markmiði, sem 233. gr. a almennra hegningarlaga stefnir að, en reglur þess ákvæðis verða að teljast nauðsynlegar í skilningi 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar til að sporna við fordómum, andúð og fyrirlitningu í garð afmarkaðra þjóðfélagshópa, sem unnt væri að stuðla að með hatursorðræðu.“

Núgildandi ákvæði hegningarlaga um hatursorðræðu vefjast ekkert fyrir Hæstarétti. Þar vita menn að til eru þeir hagsmunir sem vega þyngra en óheft frelsi manna til að tjá skoðanir sínar á fordómafullan hátt og sýna andúð og fyrirlitningu í garð afmarkaðra þjóðfélagshópa.

Ég hef eingöngu nefnt til sögunnar hatursorðræðu gegn hinsegin fólki, enda er hæstv. ráðherra tíðrætt um hana í greinargerð sinni og ómögulegt annað en að komast að þeirri niðurstöðu að þessir dómar, þessir dómar nær eingöngu, liggi til grundvallar þessari fyrirhuguðu breytingu. Ákvæði hegningarlaganna er hins vegar ætlað að vernda mun fleiri hópa, þannig að það er einnig til þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða. Og víða um lönd, lönd sem við viljum gjarnan vera samferða, er verið að útvíkka og skoða að útvíkka þessa skilgreiningu enn frekar líkt og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kom inn á áðan.

Nú erum við áreiðanlega sammála um það, ég og hæstv. dómsmálaráðherra, að tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðislegs þjóðfélags, en við hljótum líka að vilja sporna gegn hatursorðræðu sem miðar í raun að því að vinna gegn tjáningarfrelsi jaðarhópa og við vitum það báðar, ég og hæstv. ráðherra, að frelsi hvers og eins nær ekki lengra en að frelsi næsta manns.

Hæstv. dómsmálaráðherra segir tilganginn með frumvarpinu verið að auka vernd tjáningarfrelsis hér á landi. Það er hins vegar grundvallarmisskilningur að tjáningarfrelsið styrkist með þrengingu á ákvæði um hatursorðræðu. Það er ekkert sem kallar á slíka breytingu. Slík breyting er ekki til góðs fyrir íslenskt samfélag, hvaða hópi sem menn tilheyra þar. Hatursorðræða er undanfari ofbeldis. Það hefur sannað sig æ ofan í æ og við höfum ekkert með þá mynd tjáningarfrelsis að gera.