149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

184. mál
[17:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vildi leggja orð í belg um þetta góða mál sem við Vinstri græn höfum haldið til haga nokkuð lengi og er endurflutt, en þörfina fyrir það tel ég vera jafn brýna og fyrir nokkrum árum þegar málið var fyrst flutt á 140. löggjafarþingi. Eins og komið hefur fram setja flest ríki sér lög og reglur sem takmarka á ýmsan hátt aðilaskipti að fasteignum, ekki síst landbúnaðarlandi. Þessar reglur miða m.a. að því að tryggja að ríkisvaldið hafi með einhverju móti stjórn á viðskiptum með land og yfirsýn yfir eignarhaldi á því.

Við horfum upp á það í auknum mæli að auðmenn kaupa upp jarðir sem verið hafa í ábúð og þeir ætla sér ekki að nýta þær áfram til landbúnaðarframleiðslu eða -nýtingar. Eins og lagaumhverfið er í dag geta allir innan EES-svæðisins átt viðskipti með bújarðir. Ekki fylgja þeim kaupum neinar kvaðir. Minnst hefur verið á reglugerð sem sett var árið 2013. Hún fól í sér takmarkanir á eignarhaldi erlendra aðila á jörðum hér á landi en var felld úr gildi af ótta við ESA, Eftirlitsstofnun EFTA.

Samt sem áður hafa þjóðir eins og Danir sett ströng skilyrði fyrir kaupum á bújörðum í sínu landi. Þar er þess m.a. krafist að kaupandi bújarða skuli hafa fasta búsetu á viðkomandi jörð. Þannig er komið í veg fyrir að jarðir færist á hendur fárra fjársterkra aðila og enn sem komið er hefur ESA ekki haft afskipti af þessum lögum í Danmörku.

Við Vinstri græn höfum endurtekið flutt tillögur um endurskoðun á þessu lagaumhverfi um uppkaup á jörðum og landi og við höfum einnig flutt tillögu um að stjórnvöld móti stefnu um flokkun, vernd og skráningu ræktanlegs lands til stuðnings við ákvarðanatöku um nýtingu þess og landnotkun.

Ég mælti fyrir þeirri tillögu fyrir um tveimur árum. Sú tillaga stendur enn fyrir sínu, að ég tel. Ég tel mikilvægt að vinna með tillögur starfshóps um eignarhald á bújörðum, sem er að störfum. Ég tel mikilvægt að landeigandi hafi hér búsetu og eigi hér lögheimili og það sé brýnt að ræktarland sé ekki tekið undir óskylda starfsemi og að búið sé á flestum jörðum svo sveitir landsins myndi áfram þá byggðafestu sem við viljum sjá með lifandi samfélagi. Þess má geta að um 18.000 manns í strjálbýli treysta með einum eða öðrum hætti á landbúnaðinn í dag. Það er landbúnaðurinn sem er órjúfanlegur hluti af byggðafestunni í okkar landi enn sem komið er og verður vonandi áfram um ókomin ár.

Víða er lögð áhersla á að halda eignarhaldi á landi og auðlindum í almannaeign. Stjórnvöld sem ríkja þar sem einkaeignarréttur á landi er í hávegum hafður, eru mörg hver meðvituð um mikilvægi þess að halda eignarhaldi á landi í höndum eigin þegna. Aukin meðvitund um samspil eignarhalds á landi og réttar til ráðstöfunar á auðlindum hefur m.a. orðið til þess að ríki sem í hafa umtalsverðum mæli misst eignarhald á landi út fyrir landsteinana, leggja nú sum hver bann við landsölu til erlendra aðila.

Önnur ríki leggja áherslu á að settar séu skýrar skorður og takmarkanir í þessum efnum og í sumum tilvikum er reynt að vinda ofan af landsölu sem þegar hefur átt sér stað. Má þar nefna ríki í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu þar sem alþjóðlegir auðhringir hafa ásælst auðlindir í þessum löndum í gegnum árin. Menn hafa vissulega áhyggjur af þverrandi auðlindum í heiminum, ekki síst vegna þess að auðlindir, eins og t.d. vatnið, verða æ dýrmætari með árunum.

Þegar rætt er um framtíðarsýn fyrir land og þjóð í þessum efnum skiptir eignarhald á landi og auðlindum miklu máli, alveg jafnt hjá okkur sem annars staðar. Á alþjóðavísu er einnig æ betur staðfest hvílík verðmæti felast í eignarhaldi á jarðnæði og landi burt séð frá þeim auðlindum öðrum sem slíku landi fylgja. Í því sambandi má til að mynda benda á að gott ræktar- og landbúnaðarland er víða orðið af skornum skammti í löndunum í kringum okkur.

Eins og ég vísaði til hér fyrr í ræðu minni eru þessi sérstöku lög í Danmörku. Meginregla þeirra er að einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir þar eða hafa áður búið þar í a.m.k. fimm ár þurfa leyfi dómsmálaráðuneytisins til að geta eignast fasteignarréttindi í Danmörku. Það sama gildir um félög, fyrirtæki og stofnanir og aðra lögaðila sem ekki hafa heimilisfesti í Danmörku, og erlend stjórnvöld. Þar getur dómsmálaráðherra sett reglur um undanþágur frá meginreglunni ef um er að ræða heilsársbústað eða fasteign, sem er nauðsynleg forsenda þess að rétthafinn geti stundað sjálfstæða atvinnustarfsemi eða þjónustustarfsemi í landinu.

Ögmundur Jónasson, sem sat hér sem innanríkisráðherra á árum áður, var baráttumaður fyrir því að reynt yrði að koma í veg fyrir uppkaup á landi erlendra aðila. Hann reyndi sem ráðherra að setja reglugerð þar sem reynt var að hamla því að erlendir aðilar gætu fest kaup á landi ef þeir ættu ekki lögheimili hér eða væru íslenskir ríkisborgarar. En sú reglugerð var numin úr gildi af ótta við að hún stæðist ekki reglur ESA. Ég tel mikilvægt í þessari umræðu að þetta mál verði tekið mjög föstum tökum.

Við þurfum að skoða lagaumhverfið og varast að brenna okkur á því sem margar aðrar þjóðir hafa brennt sig á, þ.e. að hafa ekki lengur yfirráð yfir eigin landi og hvernig það er nýtt, hvort sem það er nýtt undir landbúnað eða ferðaþjónustu eða til ýmissar annarrar notkunar. Þess vegna þurfa stjórnvöld hér að vinna hratt og vel í þessum málum og skoða hvað hægt er að gera og bregðast við sem fyrst því að heimurinn er auðvitað alltaf að verða minni og minni varðandi það að fjármagn flæðir um og aðilar sem eiga fjármuni horfa til landa þar sem möguleikar eru á að komast inn og kaupa upp lönd og hafa umráð yfir landsvæðum, hvort sem þar eru auðlindir eða ekki.

Landið sem slíkt er auðvitað auðlind, svo ég tel mikilvægt að þetta mál fái góða umfjöllun í atvinnuveganefnd, sem ég er reyndar formaður fyrir. Ég lofa því að gera mitt besta til að vinna málið vel ásamt félögum mínum í atvinnuveganefnd. Ég tel brýnt að taka þetta mál föstum tökum til framtíðar fyrir land og þjóð.