150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla í örfáum orðum að bregðast við ræðu hv. þm. Guðjóns Brjánssonar áðan varðandi Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að hæstv. nýsköpunarráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur boðað að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði lögð niður í núverandi mynd. Mér fannst þingmaðurinn hins vegar ranglega gefa í skyn að með því yrði öllum þeim verkefnum sem hafa verið á hendi þeirrar stofnunar hætt og niðurstaðan yrði með einhverjum hætti minni stuðningur við nýsköpun í landinu en áður.

Í því samhengi er rétt að fram komi að þessi tillaga ráðherra — sem hún kynnir snemma, á að taka gildi um næstu áramót og gert er ráð fyrir mikilli vinnu í aðdraganda þess — á sér rætur í mikilli stefnumótun sem unnin var á síðasta ári um nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og þar er svo sannarlega ekki gert ráð fyrir því að um minni stuðning, beinan eða óbeinan, við nýsköpun verði að ræða en áður, þvert á móti.

Hins vegar er verið að endurskoða stofnanafyrirkomulagið og við verðum í opinberri umræðu, bæði hér á þingi og annars staðar, að gera greinarmun á því þegar verið er að ræða um stofnanaumgjörð, eins og á þessu sviði, og svo hins vegar um raunverulegan stuðning við þau verkefni sem um er að ræða. Enginn sem hefur hlýtt á hæstv. ráðherra eða fylgst með umræðum um þessi mál á að vera í vafa um það að vilji hennar og ríkisstjórnarinnar stendur til þess að efla nýsköpunarumhverfi í landinu. En hins vegar er stofnanafyrirkomulag eitthvað sem þarf að taka til endurskoðunar með reglulegum hætti og það er akkúrat það sem ráðherrann er að boða.