150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[16:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að líta aðeins til sögunnar í þessu samhengi og þá aftur til baka til ársins 2003 þegar við vorum með sjö stjórnstöðvar í landinu. Skipulagið var þannig að það fór eftir eðli aðgerða hvaða stjórnstöðvar voru virkjaðar á hverjum tíma. Almannavarnastjórnstöðin var virkjuð síðust og sjaldnast af öllum. Þar var rykið dustað af.

Árið 2003 stigum við það gæfuspor að stofna samræmingarstöðina í Skógarhlíð. Það gekk ekki átakalaust en tókst að lokum. Á þeim tíma var horft alveg sérstaklega til þess skipulags víða um heim. Hingað komu fulltrúar erlendra þjóða til að fylgjast með þessari uppbyggingu og því merkilega skrefi sem hafði náðst með því að samræma alla viðbragðsaðila á einn stað í eina stjórnstöð, samræma þannig aðgerðir og stilla saman krafta allra.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og í nýjum lögum 2008 var settur enn frekari rammi utan um þessa starfsemi, m.a. komið á stjórn samræmingarstöðvarinnar. Það var ákveðið framfaraskref en verður að segjast eins og er að áfram héldu ákveðin innbyrðis átök og þetta þekkja þeir sem vel þekkja til í þessum geira, innbyrðis átök um völd á þessum vettvangi. Almennt hefur þetta þó gengið mjög vel og það mikla framfaraskref sem var stigið hefur fært okkur mjög fram á veginn og skilað okkur þeim faglegu vinnubrögðum sem við verðum vitni að þegar á reynir á stundum eins og við upplifum mjög oft í samfélagi okkar. Þó eru margir veikleikar í þessu kerfi enn og þeir snúa sérstaklega að skipulagi við undirbúning viðbragðsáætlana og áhættumati á landsvísu. Þar eigum við mikið verk óunnið og ég ætla að koma betur að því, virðulegur forseti, í seinni ræðu minni.