150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[16:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hv. þingmanni sem bauð til þessarar umræðu þykir kannski efni minnar ræðu ekki vera aðalatriðið og svo má vera. Það er hins vegar atriði sem þarf að vera með í umræðunni og segi ég það auðvitað vegna þess að hér höfum við ekki mikinn tíma til að ræða þetta.

Almannavarnir eru hluti af því að tryggja öryggi samborgara okkar. Þjóðaröryggi er annað hugtak þar sem yfirvöld þurfa að geta brugðist mjög skjótt og hratt við hugsanlega mjög alvarlegum atburðum. Í slíkum aðstæðum erlendis tíðkast að þær eru notaðar til að réttlæta vald yfirvalda og notkun yfirvalda á því valdi. Nýjasta dæmið er hvernig kínversk yfirvöld nota Covid-19 ástandið, sem er alvarlegt og enginn gerir lítið úr, til að réttlæta það tangarhald sem kínversk yfirvöld hafa á kínversku samfélagi. Við erum það blessunarlega heppin að á Íslandi höfum við ekki þurft að glíma við slíka misnotkun yfirvalda, a.m.k. ekki jafn alvarlega og Kína, þótt það hafi alveg gerst að íslensk yfirvöld hafi misnotað vald sitt, hlerað fólk sem þeim þótti of langt til vinstri og hvaðeina.

Ástæðan fyrir því að almannavarnir og þjóðaröryggi eru misnotuð af yfirvöldum með þessum hætti er sú að hvort tveggja er öllum mikilvægt. Það er ekki dregið úr mikilvægi almannavarna eða þjóðaröryggis með því að benda á að þessi atriði, eins mikilvæg og þau eru, eru samt innan þess samhengis að við búum í frjálsu og lýðræðislegu samfélagi og ætlum að gera það áfram, sama hvað tautar og raular, sama hvað á dynur.

Þegar við veltum fyrir okkur hlutum eins og Covid-19 sem núna dynur yfir heyrir maður alveg hugmyndir sem væru ekki teknar mjög alvarlega í frjálsu samfélagi nema ef uppi væri mjög alvarleg staða. Þegar við lendum í alvarlegri stöðu eigum við vissulega að gera það sem í okkar valdi stendur til að takast á við hana en við þurfum alltaf að hafa hugfast að við ætlum samt að búa í frjálsu og lýðræðislegu samfélagi. Það þýðir að við getum ekki leyft okkur hvað sem er til lengdar, við þurfum að hafa til hliðsjónar ákveðnar takmarkanir á því hvað við leyfum okkur að gera til framtíðar.