150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[16:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hérna um almannavarnir og ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir umræðuna og hæstv. forsætisráðherra einnig. Það kom svolítið skrýtinn svipur á mig þegar hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson minntist á almannavarnaflauturnar. Ég hugsaði með mér að ég hefði ekki heyrt þær lengi og svo hugsaði ég að það væri eins gott vegna þess að þegar þetta var á sínum tíma var kalda stríðið í algleymingi og fréttir voru lengi að berast, fyrst í útvarp og svo sjónvarp. Þá var sjónvarpslaust á fimmtudögum og engar fréttir bárust. En það sem er kannski aðalatriðið í þessu eru almannavarnir og björgunarsveitirnar. Við erum með björgunarsveitir og við þurfum að fara að hugsa upp á nýtt hvernig þær eiga að fjármagna sig. Það er ekki eðlilegt að þær fjármagni sig með flugeldasölu með tilheyrandi áhættu og mengun. Við verðum að sjá til þess að björgunarsveitir geti starfað á viðeigandi hátt. Við verðum að gera okkur grein fyrir að þetta eru sjálfboðaliðar. Þarna leggur fullt af fólki undir líf og limi fjölskyldunnar og okkur ber að sjá til þess að björgunarsveitarmenn séu tryggðir sem og að störf þeirra séu virt í hvívetna. Það sýnir sig hvernig váin er í heiminum að við fáum fréttir á örskotsstundu, eins og t.d. með skýstrókana sem fóru yfir Tennessee í fyrradag. 25 dánir, þvílíkar hamfarir. Þetta er að ske, við erum að upplifa svona breytingar í heiminum og þess vegna verðum við að sjá til þess að hafa almannavarnakerfið gott og að það virki. Það þarf líka að sjá til þess að það sé samhæft á allan hátt eins og hægt er.