150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[16:50]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við erum farin að taka miklu fleiri atburði og færa þá undir einhvers konar vá en atburði sem fyrir 30–40 árum voru þess eðlis að þeir gengu yfir án nokkurrar aðkomu stjórnvalda. Þessi þróun er að mörgu leyti til góðs þótt vissulega megi finna dæmi um viðbrögð sem fóru hátt yfir markið. Hver er orsök þessa? Er slíkum atburðum að fjölga? Eru þeir að versna? Ég ætla ekki að dæma um það en vissulega hafa í vetur nýleg snjóflóð, óveður og ný tegund inflúensu beint kastljósinu að viðbrögðum stjórnvalda á sviði almannavarna. Það er kannski þess vegna sem við erum hér að ræða málið.

Ég fagna því sem hæstv. forsætisráðherra sagði og ánægjulegt að heyra að starfandi ríkislögreglustjóri er að hefja vinnu við að fara yfir kerfi almannavarna. Enginn er betur til þess fallinn en hann og ég treysti honum fullkomlega til þess.

Varðandi það að setja á fót nýja stofnun eru fyrstu viðbrögð mín: Nei, ekki nýja stofnun. Við eigum nóg af stofnunum. Það er mikilvægt að hafa slagkraft lögreglu við yfirstjórn almannavarna og ekki má slíta það í sundur.

Málshefjandi hefur verið að ræða um björgunarsveitirnar og þar er unnið mjög mikið sjálfboðastarf, björgunarsveitirnar njóta augljóslega mikils velvilja, vinna gífurlega þakklátt starf í þágu lands og þjóðar og hafa margoft sannað það. Hvar værum við ef þær væru ekki? Rætt hefur verið um launuð og ólaunuð störf á vegum þeirra eða annarra. Hvernig sér málshefjandi þar fyrir sér breytingar? (Forseti hringir.) Á að setja ótölulegan fjölda fólks á launaskrá ríkisins?