150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[16:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja fyrir mig að mér þætti betra ef almannavarnir tilheyrðu einhvers konar sjálfstæðri stofnun. Mér finnst áhugavert að heyra hér miklar efasemdir um að ný stofnun sé gott fyrirbæri. Mér finnst ekki aðalatriði hvort það heitir ný stofnun eða skrifstofa hér eða þar. Mér finnst skipta máli hvernig kerfið virkar, hvernig einingar þess hafa samskipti innbyrðis og þess háttar, en hvort það heitir stofnun eða skrifstofa finnst mér ekki skipta neinu máli.

Eins og aftur á móti hefur komið fram í umræðunni annast ríkislögreglustjóri málefni almannavarna í umboði ráðherra. Án þess að vilja tortryggja ríkislögreglustjórann eitthvað sérstaklega myndi ég halda að almannavarnir fælu í sér ýmislegt fleira sem ég myndi hugsanlega hafa smááhyggjur af að ríkislögreglustjóri væri líklegur til að líta oftar á sem mótaða af menningu sem óhjákvæmilega kemur fyrir í lögregluembættum, þar á meðal ríkislögreglustjóra.

Þá fer ég aðeins inn á það sem ég nefndi í fyrri ræðu minni. Án þess að draga úr mikilvægi þess góða starfs sem þegar er unnið og án þess að draga úr mikilvægi almannavarna eða þjóðaröryggis vil ég segja að hér er sama tilhneiging og annars staðar, bara alls staðar í mannlegu samfélagi, til að fara að líta á lögreglu, hernaðarlausnir eða einhvers konar hernaðarnálgun við vandamál sem þurfa ekki að vera þannig þegar lögreglu eða hernaðaryfirvöldum er falið hlutverk sem þarf ekki að vera. Þótt ég viti að hv. þm. Jón Gunnarsson taki eflaust ekki undir allt sem ég segi hér tek ég undir með honum í því að mér finnst líta betur út að hafa þetta í einhvers konar fyrirkomulagi sem aðskilur hagsmunaárekstra (Forseti hringir.) sem gætu leitt af sér það ástand sem ég viðra. Aftur vil ég ítreka að þetta er ekki aðalatriði umræðunnar. (Forseti hringir.) Ég nefni þetta vegna þess að enginn myndi gera það nema sá sem hér stendur.