150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[17:07]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þetta hafa verið áhugaverðar umræður. Öll erum við á sama báti, segja margir, eða það er a.m.k. inntak orðanna. Það er hárrétt. Það sem við erum hér að ræða er að hámarka getu almannavarna til að þjóna hlutverki sínu. Það hefur gengið vel, en hversu lengi gerir það það án þess að við grípum verulega inn í og breytum?

Menn velta fyrir sér þessari sjálfstæðu stofnun. Ég held að vísir að henni sé nú þegar í samhæfingarmiðstöðinni. Ég vil meina að breytt umfang og aukið álag á almannavarnakerfið yfir höfuð knýi á um nauðsyn þess að þarna starfi óháð stofnun sem getur sinnt sínum innri og ytri málum af krafti. Stjórn lögreglu verður áfram á vettvangi og ríkislögreglustjóri er þar yfirmaður, en ég legg á það áherslu að menn ræði í raun og veru þessa sjálfstæðu stofnun af mikilli alvöru.

Yfir 4.000 björgunarliðar eru til reiðu á Íslandi í sjálfboðaliðastarfi. Mín hugmynd er sú að létta á þessu fólki með því að hluti af störfum þess við fjármögnun, rekstur, stjórnun og jafnvel hluta útkalla sé á höndum fólks sem er vissulega á launum. Við erum meira að segja með slíkt fólk, við erum með það innan Landhelgisgæslunnar, lögreglunnar o.s.frv. þannig að það er hægt að hugsa sér slíka sveit. Forsætisráðuneytið tel ég að eigi að vera yfir þessu vegna samhæfingar.

Ég legg á það áherslu að það sem ég hef hér sagt er nokkuð í anda þess fólks sem vinnur við almannavarnir. Ég hvet til þess að við þá endurskoðun (Forseti hringir.) sem er farin í gang verði haft mjög þétt samráð við þá sem eru jafnan á vettvangi. Ég ítreka þakkir til hæstv. forsætisráðherra og ykkar hér í salnum fyrir þátttökuna.