150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[17:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að forgangsraða því hvernig maður hreinsar til í eftirlitskerfinu. Maður stekkur á stórhættulegar stéttir eins og bílasala og leigubílstjóra en lætur stóru kallana í friði. Maður lætur í friði þá sem ráða matvörumarkaðnum og maður skiptir sér ekkert af samkeppnislögum.

Þetta mál er sýndarmennska, flaustur og mistök þegar ekki er hlustað á þá sem gerst þekkja til í greininni, samanber Bílgreinasambandið og fleiri sem hafa komið fram með mjög skýra sýn á þetta mál, eins með iðnaðarmennina sem hafa varað við þessu. Maður hlýtur að hlusta á þá. Verkefni okkar sem erum hér er að hlusta á fólkið í landinu en ekki ganga gegn því. Ég hef hins vegar sagt áður að ég skal taka þátt í að leiðrétta þetta mál þegar leiðréttingarfrumvarp kemur fram innan fárra ára því að þetta er (Forseti hringir.) ávísun á vandræði.